151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Heilaskaði, t.d. af völdum slysa — ég hef komið aðeins að því hér áður. Einu sinni var ég að aðstoða persónu við að fá örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins. Viðkomandi var með heilaskaða eftir slys. Það furðulegasta og það sem sló mig mest þegar maður las skýrsluna, þar sem honum var neitað um örorkubætur, var að viðkomandi var spurður að því af lækni hvort hann væri með geðræn vandamál, hvort hann væri þunglyndur eða eitthvað. Viðkomandi sagði: Nei. Hann skildi ekki spurninguna. En bara þetta svar var nóg til að það þurfti að kæra úrskurðinn til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þetta sýnir svart á hvítu við hvað er að eiga þegar um svona hluti er að ræða.

Annað sem við verðum líka að taka inn í dæmið um ákominn heilaskaða er að við erum núna að þrengja að talmeinafræðingum. Þar koma þeir mjög sterkt inn því talmeinafræðingar taka einmitt á vanda hjá þeim sem verða fyrir skaða og missa mál, til að reyna að hjálpa þeim að ná því aftur. Það er verið að skerða aðstæður talmeinafræðinga í dag. Þarna þurfum við að efla þjónustuna, það þarf að efla talmeinafræðinga stórlega. Við erum að láta allt of litla fjármuni renna til þeirra og í heildina koma þeir til með að fá minna á einu ári en við ætlum t.d. að setja til fjölmiðla, 500 milljónir þar.

Við eigum að efla aðstoðina stórlega í þessu dæmi, aðstoð við talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og aðra sem sinna þessu fólki. Þar þurfum við að bæta úr.