151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:09]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka aftur þessa góðu umræðu hér í dag. Það eru ýmsar birtingarmyndir sem koma fram vegna ákomins heilaskaða. Það getur verið breytt hegðun, skortur á framtakssemi og jafnvel það sem er vont að tala um en það er ofbeldi. Á síðu Heilabrota er talað um að ekkert markvisst meðferðarúrræði sé í boði fyrir fólk í þessari stöðu hér á landi. Ég tek alla vega undir þau orð. Það getur vel verið að mér finnist það vegna þess að það er ekki sýnilegt. Komið hefur fram hér í umræðunni núna að margt er í boði víða en kannski þarf að segja betur frá því þannig að við eflum fræðslu samtímis, eyðum jafnvel ákveðnum fordómum sem eru til staðar þannig að allir geti róið í sömu átt. Það er rétt að vanda þarf til verka og þessi umræða hér er í mínum huga gott upphaf. Það eru tækifæri í þeim úrræðum eða björgum sem við höfum nú þegar. Það þarf bara að taka höndum saman og leiða þetta í markvissan farveg. Mér fannst gott að heyra að íþróttahreyfingin sé með markvissar forvarnir. Það mætti jafnvel tala um það í víðara samhengi. Ég minnist þess að hafa rekið augun í að nú séu færri sem nota bílbelti, sem dæmi. Það gæti verið eitthvað sem flokkast undir forvörn þannig að fólk kastist ekki út úr bílum og lendi með höfuðið í jörð. Það sem ég er að segja er að það er að mörgu að hyggja og hér er góð umræða í gangi.