151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Mjög er mismunandi hvernig þjónustu heilbrigðiskerfisins er háttað við einstaklinga sem fá ákominn og/eða áverkatengdan heilaskaða. Reynslan sýnir að hún er oft tilviljanakennd og takmörkuð. Hér á landi fer greining og endurhæfing fólks með heilaskaða aðallega fram á Grensás og Reykjalundi, eins og ég nefndi í fyrra innleggi mínu. Þessar tvær stofnanir sinna samtals um 40–50 nýjum tilvikum árlega og ná því einungis að sinna um helmingi þeirra sem sárlega þyrftu á þjónustu að halda. Þess má geta að börn fá alvarlega heilaáverka til jafns á við þá sem eru eldri. Yfir 500 börn og unglingar yngri en 18 ára eru árlega greind með heilaáverka á Íslandi, þar af um 200 börn sem eru undir fjögurra ára aldri. Af heildarhópnum greinast um 20 börn með miðlungs eða alvarlega heilaáverka. Sýnt hefur verið fram á að afleiðingar heilaskaða á barnsaldri koma oft ekki að fullu fram fyrr en á fullorðinsárum. Þetta er auðvitað vísbending um að sérhæfð markviss úrræði séu ekki til staðar hér á landi fyrir börn og unglinga sem takast á við afleiðingar heilaskaða. Úr því þarf að bæta. Það er auðvitað fagnaðarefni að íþróttahreyfingin sé komin til vitundar um þennan vanda og að pústrar og höfuðhögg séu oft fylgifiskur leiksins. Það er til fyrirmyndar. Norsk kostnaðar- og hagkvæmnigreining á endurhæfingu fólks með heilaskaða bendir til að ótvíræður sparnaður sé fólginn í viðeigandi og samfelldri íhlutun og langtímastuðningi en ég veit ekki til þess að slík úttekt hafi verið gerð á Íslandi.

Frú forseti. Hvar liggur vandinn? Fagfólk er sammála um að vandinn liggi alls staðar í kerfinu og m.a. í því að þekkingu skorti á einkennum heilaskaða og afleiðingum hans. Það vantar að skilgreina og bæta þjónustu við einstaklinga með heilaskaða á öllum stigum, allt frá bráðastigi til endurhæfingar og uppbyggingar (Forseti hringir.) svo að þessir einstaklingar geti lifað innihaldsríku og góðu lífi í samfélaginu.