151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni og öðrum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í samtalinu. Ég saknaði aðeins úr þessum tillögum starfshóps sem skýrslan snýst um að ekki væri fjallað um atferlistengda taugaendurhæfingu. En hæstv. heilbrigðisráðherra kom inn á þetta og ég sé og heyri og veit að heilmikið hefur gerst enda hefur orðið vitundarvakning innan íþróttahreyfingarinnar og er að gerast í heilbrigðiskerfinu. Þetta er heilmikið samspil sem þarf að fara fram því að mörg kerfi þurfa að taka utan um þessa einstaklinga eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni.

Atferlistengd taugaendurhæfing hefur gefist vel erlendis og í því samhengi er hægt að nefna að í Kanada er miðað við að endurhæfa færni og sjálfstjórn með það að markmiði að auka sjálfstæði og lífsgæði. Það eru þeir einstaklingar sem hafa fengið framheilaskaða og eru með hegðunarvandamál út frá honum. Meðferðin felst í að þjálfa þessa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun með aðferðum atferlisgreiningar þannig að þeir geti lifað í sátt og samlyndi við aðra í samfélaginu. Hér á landi hefur endurhæfingarsetrið Heilabrot verið tilbúið að bjóða upp á slíka meðferð og hefur verið að reyna að ná eyrum yfirvalda með það. Ég fagna því líka sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson talaði um, að verið væri að hefja sérnám í endurhæfingu. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þekking byggist upp í landinu vegna þess að þetta er stór hópur. Það er fólk sem gengur frá lækni til læknis og til ýmissa meðferðaraðila og þótt það sé ekki með hegðunarvandamál þá eru þetta kannski (Forseti hringir.) óútskýrðir líkamlegir verkir sem fólk býr við í áratugi og getur ekki skilgreint og á þá erfitt með að fá einhverja meðferð. En takk kærlega fyrir umræðuna.