151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna og ekki síst fyrir að flytja þetta mál. Þetta er viðkvæmt mál en engu að síður afar mikilvægt og mikilsvert að við séum að stíga það skref að reyna að forma löggjöf í kringum þennan erfiða og eiginlega alltaf mjög þunga þátt í heilbrigðisþjónustu. Ég tala af töluverðri reynslu hvað þetta varðar og þekki þess vegna kannski betur en ella hvernig þessi mál virka á vettvangi, þegar heilbrigðisstarfsmenn taka ákvarðanir af þessu tagi. Það er yfirleitt ekki einfalt eða gert af neinni léttúð. Það er alla vega ekki mín reynsla.

Ég vil nefna sérstaklega nokkur atriði án þess að fara út í langt mál. Í fyrsta lagi er það fjarvöktun. Fjarvöktun er úrræði sem er ekki eingöngu notað í nauðungarskyni en ef reynt er að rýna í textann er einhvern veginn gengið út frá því í frumvarpinu að það sé þannig. Ég tel að það verði þá eitt af verkefnum nefndarinnar að skýra hugtakið betur, koma jafnvel með sérstaka orðskýringu þar að lútandi og þá ekki hvað síst til að skilja fjarvöktun sem er ekki í nauðungarskyni frá fjarvöktun sem er fyrst og fremst til þess fallin að fylgjast með hegðun einstaklings eða gerðum eða einhverju þess háttar. Það er svo sannarlega annað en t.d. fjarvöktun þar sem er fylgst með lífsmörkum eða einhverju slíku, sem er náttúrlega gert á hverjum degi og ég efast um að nokkur geri miklar athugasemdir við. Þegar fjarvöktun er beitt, til að mynda í eftirlitsskyni, er hins vegar gríðarlega mikilvægt að skrá það, eins og kemur fram í frumvarpinu, og að það sé þá byggt á einhverju öðru en tilfinningum eða einhverju slíku, og það skráð greinilega að henni sé beitt á ákveðnum forsendum, í ákveðinn tíma og málið verði endurskoðað innan ákveðins tímaramma. Öll þessi atriði hafa alla vega sums staðar í nágrannalöndum okkar fengið stöðu í löggjöf og sums staðar er reyndar gengið svo langt að nánast er skrifað niður á hversu margra klukkutíma fresti eigi að skrá, skrásetja og endurskoða. Það er eitthvað sem nefndin þarf að horfa til og fara yfir.

Annað atriði sem ég tel mjög mikilvægt er að vísu aðeins komið inn á í frumvarpinu. Það er í 1. gr. frumvarpsins þar sem nauðung er skilgreind, þ.e. þar sem sjúklingi er haldið föstum og gefið lyf í þeim tilgangi að draga úr ofbeldisfullri hegðun. Sem betur fer er það langoftast tilfellið að þegar sjúklingum eru gefin lyf til að hafa áhrif á hegðun eða þess háttar er það ekki endilega gert í einhverri þvingun. Það er sjaldnast sem fólki er haldið. En ég þori að fullyrða að ekki er alltaf skráð að raunverulega ástæðan fyrir því að eitthvert tiltekið lyf er valið umfram annað sé að reyna að hafa meiri áhrif á hegðun en aðra þætti sem snúa að dvöl einstaklingsins á sjúkradeild. Það verður eitt af því sem við munum vafalítið horfa til.

Mér finnst að rýna þurfi dálítið d-lið 3. gr. þar sem er ákvörðun um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar. Þar er áskilnaður um að tilkynna skuli nánasta aðstandanda um ákvörðun og, ef við á, lögráðamanni sjálfræðissvipts manns o.s.frv. Það er ekki alveg gefið að það séu hagsmunir sjúklings, sem liggur inni á einhverri deild í tilteknu ástandi, að farið sé til aðstandenda með hverja einustu meðferðarákvörðun sem viðkomandi sætir. Það kann alveg að vera að sambandið við aðstandanda sé flóknara en svo að það þjóni hagsmunum sjúklingsins að það sé alltaf gert. Að mínu mati þarf að hafa a.m.k. pínulitla rifu á það að með samkomulagi við sjúkling megi víkja frá þessu eða eitthvað þess háttar. Stundum er það sannarlega þannig og persónulega hef ég oft lent í slíkum aðstæðum.

Það er gríðarlega mikilvægt að allar svona ákvarðanir séu tímabundnar eins og kemur fram í d-lið 3. gr. Síðan er útskýrt að það megi aldrei vera lengur en til sex mánaða í senn. Mér þykir það rúmt. Ef við ætlum að hafa heimild sem getur varað í allt að sex mánuði í senn þá þurfa að vera skilmerki á því hversu oft á því tímabili þurfi að endurskoða ákvörðunina eða með hvaða millibili. Mér finnst að alla vega þurfi að vera einhvers konar rammi utan um það. Að vísu eru á einhverjum stöðum í frumvarpinu reglugerðarheimildir og vel má vera að þær nái ágætlega utan um þessi atriði eða að hægt sé að ná utan um þau með reglugerðarheimildum. En vegna þess hvað þetta er viðkvæmt held ég að best sé, ef nokkur tök eru á því, að skrifa svona atriði inn í lagatextann. Ég held að það geti verið alla vega einnar messu virði að freista þess þar sem það er hægt.

En ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Þetta er afar mikilvægt frumvarp og ég ætla ekki að segja að það verði skemmtilegt að vinna það en það er áskorun að taka þátt í svona krefjandi verkefni.