151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

birting alþjóðasamninga í C-deild Stjórnartíðinda.

349. mál
[16:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langaði bara að koma hingað stuttlega og lýsa yfir ánægju með þessa góðu tillögu. Það er eiginlega, verð ég að segja, frekar vandræðalegt fyrir stjórnkerfið okkar að leggja þurfi fram tillögu af þessu tagi. Það er kannski birtingarmynd ákveðins áhugaleysis um alþjóðamál í íslenskum stjórnmálum. Ég held að í þessu máli sé líklega ekki við utanríkisráðuneytið eða starfsfólk þar að sakast, enda má gera ráð fyrir að þar sé töluverður áhugi á utanríkismálum, en einhvers staðar hefur eitthvert ferli misfarist sem er eðlilegt að rétta af. Sú ábyrgð skrifast auðvitað þess utan á utanríkisráðherra. Það er algerlega ljóst að birting samninga er lágmarkskrafa upp á lögmætið sem hv. þingmaður og flutningsmaður málsins fjallaði hér um.

Mig langar að nefna örstutt að hægt er að ganga svolítið lengra. Það vill þannig til að við erum aðilar að ýmiss konar samningum, ýmiss konar samþykktum, yfirlýsingum og öðru. Sumt er undirritað, annað lögfest og ýmsar mismunandi stöður á þessu öllu. Sumt kemur í gegnum Evrópuráðið, annað í gegnum tvíhliða samskipti, sumt kemur eflaust í gegnum t.d. Norðurlandaráðið og norrænu ráðherranefndina og fleira í þeim dúr. Ég hef gert tilraun til að reyna að ná yfirsýn yfir það allt saman og það mistókst alveg skelfilega. Það versta við þetta er kannski að eiginlega er ómögulegt að vita hversu vel manni hefur gengið í ljósi þess að hvergi er heildstæður listi yfir þetta allt saman. Ég myndi því velta því fyrir mér og leggja það til sem hreina viðbót við þetta mál.

Alþingi samþykkir lög en lög fara í gegnum ákveðið ferli sem endar með birtingu í Lögbirtingablaðinu. Þá taka þau gildi með hliðsjón af gildistökuákvæðum. Engu að síður heldur Alþingi sem stofnun úti lagasafni. Það er uppfært nokkrum sinnum á ári og rosalega flott ferli á því. Hægt er að ganga út frá því að maður geti farið inn á althingi.is og séð nákvæmlega hver lögin í landinu eru. Það er rosalega gott og eiginlega bara sjálfsagt og augljóst og eðlilegt ferli. Það væri gagnlegt að birting á alþjóðasamningum væri ekki bara í Lögbirtingablaðinu heldur væri sambærilegt samningasafn rekið t.d. hjá utanríkisráðuneytinu. Formið á því nákvæmlega skiptir kannski ekki höfuðmáli heldur frekar að til sé einn staður þar sem hægt er að ganga að því vísu að hægt sé að finna alla samninga sem Ísland er aðili að. Þetta er ekki mikil krafa og er tæknilega þokkalega auðvelt. Það er örugglega töluverð vinna að gangsetja þetta en ég held að það sé alveg ástæða til þess að koma svona ferli á.