151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Alþingi hefur ríkt eftirlitshlutverk og verður að rækja það af festu. Það er hlutverk okkar allra sem eigum sæti hér á þingi að passa upp á að framkvæmdarvaldið framfylgi þeim ákvörðunum sem Alþingi tekur. Það er það sem við erum m.a. að gera í nefndarstörfum, að kanna hvernig framkvæmdarvaldið rækir skyldur sínar. Það er það sem við höfum verið að fjalla um í hv. velferðarnefnd, hvernig hefur tekist til með rekstur hjúkrunarheimila, hvernig hefur tekist til með þá fjármuni sem löggjafinn, fjárveitingavaldið, ákveður hjúkrunarheimilunum. Rétt í þessu var að berast mjög alvarlegt bréf til formanns velferðarnefndar um að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi lagt til að 140 manns, annars vegar í Vestmannaeyjum og hins vegar í Fjarðabyggð, skuli sagt upp vegna ákvarðana um rekstur hjúkrunarheimila, vegna yfirtöku á HSA og HSU, þeim hjúkrunarheimilum sem voru í rekstri sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veit af þessu. (Forseti hringir.) Hún var vöruð við og það var að koma í ljós að ríkisstjórnin ætlar ekki að hlífa þessum konum og (Forseti hringir.) fólki af erlendum uppruna heldur gera sveitarfélögunum að segja upp 140 manns á þessum tímum.