151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Til að taka þetta saman þá hefur verið dylgjað í tveimur nefndum um trúnaðarbrot af hálfu hv. þingmanna. Það er mjög áhugaverð tilraun til að færa markstangir, annars vegar með því að drepa málum á dreif í tveimur nefndum og hins vegar með því að búa til réttlætingu fyrir alls konar hentisemistúlkun á þingsköpum til framtíðar. Ég er mjög feginn að ég get verið sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um það að kannski er orðið tímabært að fundir fastanefnda Alþingis séu að jafnaði opnir til þess einmitt að draga úr hættunni á svona endalausri firringu. Fundirnir eiga að jafnaði að vera opnir, ekki alltaf, ekki skilyrðislaust, en það á að vera sjálfgefið. Svo getum við haft meiri trúnað þegar þörf er á. Víða erlendis er það einmitt gert svona vegna þess að það er skilningur á því að lokaorðið sé alltaf hjá almenningi. Alltaf. Ef almenningur getur ekki fengið að vita hvað er í gangi hér á þinginu þá liggur það í augum uppi að upp munu koma svona rifrildi þegar þingmenn telja að koma þurfi upplýsingum til skila.