151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

þróun verðbólgu.

[14:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Tvo mánuði í röð hefur ársbreyting vísitölu neysluverðs mælst yfir 4%. Slíkt hefur ekki gerst síðan á vormánuðum 2013. Ég viðraði ítrekað áhyggjur mínar af verðbólguþróun og vaxandi verðbólgu í óundirbúnum fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra síðasta vor. Hæstv. fjármálaráðherra virtist þá ekki að deila áhyggjum mínum, eins og svör hans gáfu til kynna orðrétt, með leyfi forseta.

20. mars: „Ég hef bara þau svör núna að við sjáum ekki fram á það á þessari stundu að okkur standi mikil ógn af verðbólgunni.“

23. mars: „Enn sem komið er er ekki hægt að lesa út úr viðbrögðum markaðsaðila annað en að markaðurinn geri ekki ráð fyrir miklu verðbólguskoti.“

20. apríl: „Enn sem komið er gerir enginn ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Það er bara staðreynd.“

30. apríl: „En ég ítreka það sem ég hef sagt áður að við fylgjumst mjög vel með verðbólguþróun. Enn sem komið er hefur markaðurinn ekki sýnt merki þess að hafa trú á verðbólguskoti á næstunni.“

Verðbólga á ársgrundvelli hefur mælst 2,5% yfir markmiði Seðlabankans síðustu tíu mánuði, eða allt frá maí 2020. Verðbólga hefur aukist statt og stöðugt á þessum tíma. Hún var 4,1% í febrúar samkvæmt mati Landsbankans og hann spáir 4,3% verðbólgu í mars. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þróun verðlags undanfarið og hvort hann telji nú loksins tilefni til að grípa til aðgerða til að vernda heimilin fyrir neikvæðum áhrifum verðbólgu. Veit hæstv. fjármálaráðherra hvað verðtryggð lán heimila hafa hækkað mikið vegna 90% hærri verðbólgu en spáð var?