151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:38]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Klasastefna er í sjálfu sér góðra gjalda verð en hún leysir ekki stærra vandamálið, þ.e. að stuðningskerfi ríkisins við hina ýmsu geira hagkerfisins er nokkurs konar haglabyssunálgun. Það er ekki miðað nægilega vel á ákveðin markmið. Það er engin handleiðsla, engir árangursbundnir hvatar, ekki einu sinni iðnaðarstefna sem leggur línurnar um hvert gert er ráð fyrir að atvinnuvegirnir séu að stefna. Ég er svo sem ekki að bera nýja gagnrýni á borð, ég er að endurtaka mig. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður að atvinnuþróun á ekki vera máttlítil og handahófskennd heldur þyrfti frekar einhvers konar riffilsnálgun þar sem samtal stjórnvalda og atvinnulífsins ákveður stefnumörkunina og skotmörkin sem slík og ákveður hver markmiðin eru og klasastefna komi síðan inn sem liður í því að tryggja að hagkerfið hitti í mark. Það eru svo sem margar leiðir til að ná þessu fram og þessi skýrsla fer aðeins í rétta átt með það og það er jákvætt. En mér finnst bara mikilvægt að við hugsum ekki of mikið í ákveðnum lausnum þegar heildarmyndina vantar. Heildarmyndin er enn of veik. Það er hægt að tala um jákvæða þróun, t.d. stafrænar smiðjur sem samþykkt hefur verið stefna um hér á Alþingi og það er ágætt. Ég hef svo sem ákveðna sögu í því. En nú erum við hér nokkrum árum eftir að þessar stafrænu smiðjur voru samþykktar og ekki er einu sinni enn komin heildstæð stefnumótun hvað þær varðar. Þó er mikið verið að bíða eftir því.

Í öllum tilfellum, hvort sem við erum að tala um stafrænar smiðjur eða annars konar mekanisma í hagkerfinu okkar, er svo rosalega mikið af tækifærum til staðar sem við erum alveg á mörkunum með að geta farið að nýta okkur, en síðan er einhver tregða sem hindrar að við náum mun betri árangri en við höfum verið að ná. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega ofan í tiltekin atriði skýrslunnar. Þetta er góðra gjalda vert. Þetta er á réttri leið, þetta er innlegg inn í stærri umræðu. En mig langar bara til að leggja áherslu á það núna að stærri umræðan er ókláruð. Það vantar stóra þætti inn í þetta. Það vantar iðnaðarstefnu, það vantar heildræna markmiðssetningu og það vantar einhvers konar sterkari endurgjafarlykkju. Við verðum alltaf að endurskoða hlutina, hvar hiti og þungi ríkisvaldsins á að liggja gagnvart atvinnuþróun, hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur hverju sinni og hvernig við ætlum að tryggja að framlagið skili sér í auknum útflutningstekjum, í verðmætari störfum og í verðmætari framleiðslu o.s.frv.

Ég segi bara: Við verðum að hætta haglabyssunálguninni, taka upp riffilsnálgunina og fara að hitta í mark.