151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

greiðsluþjónusta.

583. mál
[18:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um greiðsluþjónustu. Eins og fram er komið er frumvarpið á þskj. 991, 583. mál. Með þessu frumvarpi er kveðið á um ný heildarlög um greiðsluþjónustu sem innleiða greiðsluþjónustutilskipun ESB nr. 2015/2366 og hefur gengið undir nafninu PSD2-tilskipunin. Auk nýrra heildarlaga um greiðsluþjónustu kveður frumvarpið á um afleiddar breytingar á lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.

Helstu breytingar frumvarpsins frá núgildandi greiðsluþjónustulögum eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi munu nýir greiðsluþjónustuveitendur, svokallaðir greiðsluvirkjendur og greiðsluupplýsingaþjónustuveitendur, verða felldir undir gildissvið greiðsluþjónustulaga. Greiðsluvirkjun felst í því að gefa greiðslufyrirmæli að beiðni notanda vegna greiðslureiknings sem vistaður er hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda, t.d. banka. Greiðsluvirkjandi mun þurfa starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og hann þarf að sýna fram á starfsábyrgðartryggingu eða nægilegt eigið fé áður en hann hefur starfsemi. Reikningsupplýsingaþjónusta er beinlínuþjónusta sem veitir samsteyptar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem notandi greiðsluþjónustu á hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda, t.d. banka. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi þarf skráningu frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og hann þarf að sýna fram á starfsábyrgðartryggingu áður en starfsemin hefst. Frumvarpið kveður enn fremur á um rétt neytenda til að nýta sér þessa þjónustu og ekkert samningssamband þarf á milli banka og þessara nýju aðila til að svo geti orðið. Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands er falið eftirlit með framkvæmd laganna og þessari nýju starfsemi sem lýtur ekki eftirliti nú. Á sama tíma munu hinir nýju greiðsluþjónustuveitendur fá aðgang að greiðslureikningum neytenda, með þeirra samþykki, hjá bönkum í gegnum netskilafleti sem bönkunum ber skylda til að bjóða upp á samkvæmt frumvarpinu.

Frumvarpið felur í öðru lagi í sér aukna neytendavernd, m.a. þá að sjálfsábyrgð neytenda lækkar úr sem nemur jafngildi 150 evra í 50 evrur þegar greiðslumiðill eins og kort týnist eða er stolið.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu aukin áhersla á öryggi upplýsinga og skilvirkni í samskiptum allra þeirra aðila sem koma að greiðsluþjónustu en öryggi upplýsinga og samskipta er lykilatriði þegar opna á fyrir þessar nýju tegundir greiðsluþjónustu.

Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 2021 og að Seðlabanki Íslands setji reglur til nánari útfærslu á lögunum sem innleiða afleiddar gerðir ESB sem byggja á greiðsluþjónustutilskipuninni. Gert er ráð fyrir að reglur Seðlabanka Íslands til innleiðingar á framseldri reglugerð ESB 2018/389 um sterka sannvottun viðskiptavina og örugg boðskipti taki gildi strax í kjölfar laganna en komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 10. janúar 2022. Það þýðir að bankar munu þurfa að opna prófunarumhverfi fyrir nýja greiðsluþjónustuveitendur, þ.e. greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur, við gildistöku reglna Seðlabankans en Seðlabankinn mun gegna lykilhlutverki við framkvæmd reglnanna. Lagt er til að sex mánaða þróunartíma á netskilaflötum banka gagnvart nýjum aðilum verði að fullu lokið 10. janúar 2022. Í kjölfarið geti greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur boðið neytendum þjónustu að fengnu starfsleyfi eða skráningu hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Virðulegi forseti. PSD2-tilskipunin hefur fengið mikla umfjöllun undanfarin ár, bæði hérlendis og erlendis. Sumir telja að hún geti haft talsverð áhrif á hefðbundna bankastarfsemi. Þetta mun tíminn leiða í ljós en ljóst er að með innleiðingu þessarar tilskipunar verða til nýir eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði og innleiðingin ryður braut fyrir mikilvægar nýjungar á sviði greiðsluþjónustu. Þá er henni ætlað að efla öryggi í greiðslumiðlun, neytendavernd og auka samkeppni á sviði greiðsluþjónustu.

Ég tel rétt að minnast á það hér að lokum að PSD2-tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 14. júní 2019 og hún mun taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu á næstu mánuðum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. viðskipta- og efnahagsnefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.