151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Sveitarfélög landsins hafa eitt af öðru sagt upp samningum við ríkið vegna reksturs hjúkrunarheimila sem virðast hafa verið vanfjármögnuð af hálfu ríkisins. Komið hefur fram að sveitarfélögin hafa greitt umtalsvert fé með rekstri hjúkrunarheimilanna sem annars væri notað í aðra þjónustu við íbúa sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa verið í allt að átta mánuði í samningatilraunum við ríkið án árangurs og hefur á þessum tíma verið fullyrt af hálfu ríkisins að tryggt yrði að við yfirfærslu starfseminnar yrðu réttindi og kjör starfsfólks ekki skert, heldur yrði stuðst við þær reglur sem eru í lögum um aðilaskipti, sem voru einmitt sett til verndar starfsfólki og starfsemi. Ríkinu er ekki skylt að fara eftir þessum lögum en ríkið hefur samningsfrelsi og er heimilt að fara eftir þeim reglum sem þar eru, kjósi það svo, og var því lofað.

Eftir átta mánaða þref voru bæjarstjórar í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum boðaðir hvor á sinn fund í síðustu viku og þeim tilkynnt að þeir skyldu segja upp öllu sínu starfsfólki, alls um 140 einstaklingum, og að störfin yrðu auglýst. Neituðu fulltrúar ríkisins að gefa nokkur fyrirheit um að núverandi starfsfólk gæti vænst starfanna. Kom þetta forsvarsmönnum sveitarfélaganna algerlega í opna skjöldu enda hafði ítrekað verið sagt að kjör og réttindi starfsfólks yrðu ekki skert við uppsagnir samninga. Hálfur mánuður er til stefnu og er algjört uppnám hjá starfsfólki og heimilisfólki vegna þessa. Þegar störf eru auglýst af hálfu hins opinbera þurfa a.m.k. tíu dagar að líða áður en gengið er frá ráðningum og er starfsemin því í uppnámi í boði ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Fordæmalaust atvinnuleysi er á landinu og höfum við í Samfylkingunni ítrekað kallað eftir aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þessi aðgerð ríkisstjórnar, að segja upp 140 starfsmönnum, aðallega konum og fólki af erlendum uppruna á viðkvæmum svæðum, er ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar.