151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvæði um trúnað í nefndum.

[11:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann stutta tíma sem ég hef verið í velferðarnefnd verð ég eiginlega að segja að ég er orðlaus yfir því hvað á að flokkast undir trúnað. Hvernig í ósköpunum getum við verið að ræða það og sagt að einhver brjóti trúnað þegar við höfum hreinlega verið að ræða opinber fjármál ríkis og sveitarfélaga, hvernig farið er með þessa peninga? Ef það er orðið trúnaðarmál þá sé ég ekki hvernig í ósköpunum við eigum að geta unnið okkar vinnu. Það er alveg gjörsamlega útilokað. Þá hlýtur flest allt sem fram fer í nefndinni vera alger trúnaður. Þetta getur bara ekki staðist svo ég segi: Nú verðum við að fá á hreint hvað það er í þeim málum sem varða velferðarnefnd sem við megum ræða og sem við megum ekki ræða, ef við megum ekki benda á þegar það kemur fram skýrt og skorinort að eitthvað er að varðandi opinber fjármál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)