Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

almannatryggingar.

[12:11]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil segja fyrst varðandi fréttir sem berast af launahækkunum forstjóra í opinberum rekstri að þó að þær séu kannski ekki beint undir ríkinu eingöngu finnst mér þær ekki verjanlegar. Ég er bara sammála hv. þingmanni um það. Ég hef sjálfur verið talsmaður þess að við bættum við einu skattþrepi gagnvart hæstu launum í þessu samfélagi. Ríkisstjórnin hefur fjölgað skattþrepum á þessu kjörtímabili og það miðast að því að létta skatta á þeim sem hafa lægri tekjur. En ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um þessar launahækkanir.

Þegar hv. þingmaður spyr út í börn, til að mynda að þegar börn öryrkja verði 18 ára hefjist skerðingar, þá er þannig að einstaklingar verða sjálfráða þegar þeir verða 18 ára. Það er hins vegar í kerfinu, og við höfum hækkað það, að ef viðkomandi einstaklingar eru í námi er mögulegt að þessar skerðingar hefjist ekki fyrr en við 20 ára aldur. Við höfum skoðað hvort ástæða sé til að lyfta því frekar þegar námsmenn búa á heimili þar sem foreldrar eru örorkulífeyrisþegar, hvort ástæða sé til að hækka enn frekar þau aldursmörk. En auðvitað er líka á einhverjum tímapunkti spurning hvar sú lína eigi að vera. Hvenær verður barn fullorðinn einstaklingur? Hvenær fer sá fullorðni einstaklingur út á vinnumarkaðinn? Eins og ég segi hefur verið miðað við 18 ár í því. Það er fullkomlega eðlilegt að taka pólitíska umræðu um hvort rétt sé að hækka það enn frekar. Við erum með heimild til að gera það þegar kemur að ungu fólki í námi, til 20 ára aldurs, og erum að skoða hvort ástæða sé til að hækka það frekar. Það hefur verið miðað við þetta, þetta hefur verið hækkað og eðlilegt er að tekin sé umræða um þetta.