151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

almannatryggingar.

[12:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er sammála honum um að við eigum að nota hátekjuskatt. Það er ömurlegt að við skulum vera með kerfi þar sem við erum að bjóða upp á að einstaklingar skrái sig annars staðar bara til þess að valda ekki foreldrum sínum fjárhagslegu tjóni. Er eðlilegt að við segjum við fólk: Bara af því að þið eruð öryrkjar ætlum við að refsa ykkur grimmilega ef þið dirfist að búa saman. Þetta verður til þess að koma því á að fólk muni búa saman en skrá sig hvort á sínum staðnum. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni, þetta er bara eðlilegt, vegna þess að þetta fólk er að reyna að hagræða til að lifa betra lífi en getur það ekki þegar ríkið refsar því svona kerfisbundið. Það er verið að hvetja til þess að fólk bjargi sér með því að stunda ólöglegar skráningar. Þetta getur ekki verið svona. Það hlýtur að vera hægt að ganga frá þessu þannig að fólk þurfi ekki að standa í þessum sporum.