151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

almannatryggingar.

[12:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig í almannatryggingakerfinu, og það er ekki þessi ríkisstjórn sem kom því formi á, að tekið hefur verið mið af tekjum maka í ákveðnum bótaflokkum. Menn eru að velta fyrir sér þegar við erum með almannafé, erum að greiða til almannatrygginga, til þeirra sem sannarlega þurfa á því að halda, að meira fjármagn geti farið inn á heimili þar sem tekjur eru ekki eins háar. Það er grunnhugsunin á bak við þetta. Hvort hugsanlegar heildartekjur heimilis þyrftu að hækka er auðvitað þessi pólitíska spurning og er eitt af því sem við vorum að glíma við í vinnu sem fjallaði um endurskoðun almannatrygginga. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þá vinnu vegna þess að hann átti sæti í þeim starfshópi. Það er verkefni sem við þurfum að ráðast í. Ég er ekki talsmaður þess að almannatryggingakerfið taki ekkert mið af tekjum maka og heimilis, en það er spurning hvar mörkin eru.