151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir ræðu hans enda finnst mér hv. þingmaður einhver sá albesti þingmaður sem við eigum. Ég verð samt að segja að mér finnst þetta frumvarp, alveg eins og frumvarp ráðherra, hálfkák. Þetta er bara hálfkák. Við erum alltaf í hálfkáki þegar kemur að sölu á þessari vöru. Segja má að raunverulega sé ekkert vestrænt lýðræðisríki, frjálst ríki, með áfengislöggjöf eins og við erum með, ekki einu sinni Norðurlönd. Og við erum einhvern veginn föst í þessu í staðinn fyrir að taka einfaldlega ákvörðun um að afnema einkarétt ríkisins á sölu áfengis. Það er auðvitað eina vitið, enda er algjörlega fráleitt í mínum huga að ríkið eitt sjái um sölu á áfengi. Þetta frumvarp er út af fyrir sig ágætt svo langt sem það nær en hér er bara verið að tala inn í ákveðinn hóp. Hvers eiga þeir að gjalda sem framleiða meira en milljón lítra? Hvers á Ölgerðin að gjalda? Það segir manni bara að þetta er hálfkák.

Við erum föst í einhverri fortíð og ég af öllum á að vera steintröllið. Við erum gjörsamlega föst í einhverri fortíð. Það er bara þessi ríkjandi tilhneiging hjá íslenskum stjórnmálamönnum að takmarka eða jafnvel banna allt sem einhver kann að geta misnotað eða ekki kunnað fótum sínum forráð í kringum. Hvar endar þetta? Komin er krafa um að skattleggja sykur meira en annað. Á endanum verður umræðan kannski sú að sykur og sælgæti sé bara selt í ákveðnum búðum á vegum ríkisins.

Nú er sterk umræða í samfélaginu um það að banna spilakassa af því að einhverjir spila rassinn úr buxunum. Tilhneigingin er alltaf í þá átt. Þeir sem nota þetta sem skemmtun mega það ekki lengur af því að einhver ræður ekki við sjálfan sig. Við verðum að hætta þessu. Þetta mál er auðvitað bara einn lítill angi og þess vegna kalla ég þetta hálfkák. Látum fólk bera ábyrgð á sjálfu sér. Það er langfarsælast, líka út frá lýðheilsusjónarmiðum til lengri tíma. Sjálfsblekking okkar er algjör í þessu máli og í þessum málaflokkum.

Við bönnum auglýsingar. Hv. þingmaður talaði um að fyrirtækin gætu ekki kynnt vörur nema með því að fá að selja á framleiðslustigi. Af hverju göngum við ekki alla leið, hv. þingmaður? Af hverju segjum við ekki: Auðvitað mega þau bara selja framleiðsluna. Það er alls staðar þannig, alls staðar í heiminum. Fyrirtækin eru með kynningu og selja. Auðvitað er það eina vitið. Nei, við leyfum ekki auglýsingar. Við veikjum samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla af því að fjölmiðlar sem flæða um heiminn sjá bara um auglýsingarnar, sjónvarpsefnið sem við horfum á sér um auglýsingar. Í nafni lýðheilsu bönnum við auglýsingar eins og það hafi eitthvað að segja annað en að íslensk fyrirtæki tapi samkeppni um auglýsingar. Við erum ekki í fornöld, við erum gjörsamlega á steinöld þegar kemur að þessum málum. Við verðum bara að viðurkenna það og sætta okkur við að áfengi getur, eins og margar aðrar vörur, farið illa með fólk sem misnotar það. Það er ekkert flóknara en það.

Þetta er svolítið eins og með Lyfjaverslun ríkisins. Ég man þá tíð að enginn flutti inn lyf nema Lyfjaverslun ríkisins. Nú er talað um að fá að selja verkjalyf í almennum búðum, almenn verkjalyf. Það er ekkert að því. Það er bara alveg sjálfsagt, við notum öll verkjalyf. Ég held að á hverju einasta heimili séu verkjalyf af því að við finnum alltaf reglulega til. En það er auðvitað alveg hægt að misnota verkjalyf og það er hægt að misnota áfengi. Við erum algerlega föst í þessu, menn bara veifa einhverju og segja: Þetta er lýðheilsusjónarmið og rannsóknir sýna eitthvað. Svo þegar maður spyr eru það alltaf bara einhverjir sérfræðingar sem hafa rannsakað þetta. Þeir eru að vísu allir á móti því að auka aðgengi að áfengi. Við höfum aukið aðgengi stórkostlega, höfum miklu meira aðgengi en áður var þó að þetta sé allt ríkisrekið. Niðurstaðan er sú að neysla ungs fólks á áfengi hefur bara dregist saman og það var aðalvandamálið, mikil áfengisneysla ungs fólks. Nei, menn sletta þessu endalaust framan í okkur. Hættum því.

Hættum að vera svona svakalega eftir á. Tökum okkur bara saman, hv. þingmaður. Við getum búið til einfalt frumvarp. Það hefur auðvitað verið reynt en lendir alltaf á sama veggnum. Hv. þingmaður getur byrjað á einföldu frumvarpi um afnám einkasölu ríkisins á áfengi, að allir fái að selja áfengi en auðvitað gildi sömu reglur, það megi ekki selja yngri en tvítugum o.s.frv. Byrjum bara á því að allir megi selja áfengi og auðvitað megi auglýsa þessa vöru eins og allar aðrar vörur. Þegar við höfum gert það get ég alveg fullvissað hv. þingmann um að eftir einhverja mánuði myndi enginn vilja fara til baka. Alveg eins og með bjórinn, í dag dettur engum í hug: Nei, nú þurfum við að hætta með bjórsöluna, samfélagið er að fara til fjandans út af þessari bjórsölu. En við náum aldrei að taka þetta skref sem er svo eðlilegt og sjálfsagt. Við erum algjörlega föst í einhverju fornaldarhugarfari og allt miðast við að einhverjir misnoti vöruna. Og þó að við bönnuðum áfengi myndi ekkert draga úr því, alltaf eru jafn margir sem misnota vöruna. Þeir finna bara aðrar leiðir eða misnota önnur vímuefni.

Ástæðan fyrir því að við misnotum eitthvað svona er að eitthvað annað er að, ekki að hægt sé að auglýsa vöruna eða að aðrir en ríkisstarfsmenn selji hana. Þetta er svo galið. Það er eiginlega þyngra en tárum taki að ræða þetta. Þetta er svo vitlaust. Við skulum alltaf vera barin af einhverjum gömlum rannsóknum um að mikilvægt sé að takmarka aðgengi. Ég veit ekki til þess að við séum minni fyllibyttur en aðrar þjóðir af því að við erum með svo stranga löggjöf. Enginn þarf að segja mér það, ég hef farið um allan heim. Við erum föst í þessu rugli og það er svo sem ekki eina ruglið sem við erum föst í. En þetta er orðin svo erfið og raunverulega árleg umræða hér í þinginu. Alveg frá því að ég byrjaði á þingi 2013 hafa menn reynt að losa aðeins um þessa vitleysu. Allt verður vitlaust, þetta verður alltaf stærsta málið, alltaf. Ég get alveg verið viss um að einhvers staðar mun verða heilmikil andstaða við þetta litla mál, sem ég kalla hálfkák. Menn geta ekki hugsað sér að einhver selji áfengi annar en starfsmenn ÁTVR. Ef einhverjir aðrir gerðu það færi þjóðin á allsherjarfyllirí. Þessar röksemdir ganga bara ekki upp. Þetta er svo hræðilega vitlaust og órökrétt að það hálfa væri nóg. Ég legg til að fólk sem er sæmilega borgaralega sinnað taki sig saman og stígi það skref að afnema einkarétt ríkisins á sölu áfengis. Ríkið getur áfram haft sínar verslanir ef það vill, ef það telur það einhvers virði. Ríkisvaldið má mín vegna gera það en að vera bundin með einkarétti í þessu er alveg það sama og einkaréttur.

Hverjum datt í hug að hafa einkarétt ríkisins á ljósvakamiðlum á sínum tíma? Menn börðust gegn því að afnema hann. Hvernig datt mönnum það í hug? Jú, menn höfðu einhverjar áhyggjur af því að það gæti skaðað ef einkaaðilar myndu gera hvað sem er í ljósvakamiðlum. Það er bara það sama hér. Við þurfum engar áhyggjur að hafa af þessu.

Ég mun kannski ekki setja mig upp á móti frumvarpinu en það er alveg ferlegt hálfkák, hv. þingmaður, svolítið framsóknarlegt. En gott og vel, það er nú gott ef maður nær Framsóknarmönnum eitthvað aðeins áfram. Þegar maður talar svo við fólkið sem kallar sig frjálslyndu umbótaöflin getur það samt ekki einu sinni, margt af því, að vísu ekki allt, hugsað sér að hafa eðlilegt viðskiptaumhverfi í kringum áfengi. Meira að segja þeir sem kalla sig frjálslynd umbótaöfl. Maður veit stundum ekki í hvaða veröld maður er staddur. Mér finnst þá miklu frekar að menn eigi að segja það beint í staðinn fyrir að vera með allar þessar takmarkanir, segja bara: Heyrðu, við bara hættum að selja áfengi. Varan getur verið skaðleg. Hættum bara. Mér finnst það miklu heilbrigðara sjónarmið en að búa til einhvers konar takmarkanir kringum þetta sem hafa auðvitað ekkert að segja. Ég gæti miklu betur skilið að menn segðu: Förum bara aftur í bannárin. Miklu heilbrigðara. Við bara bönnum þetta nema þá að menn fái áfengi gegn lyfseðli og við búum síðan til einhver svæði, hvað heitir þetta með eiturlyfin, neyslusvæði, sem er nú eitt ruglið enn. En allt í lagi, það er kannski leiðin að banna þetta bara og gera áfengi ólöglegt en svo geti menn fengið neysluskammta í neyslurýmum. Ég legg það kannski til.