151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:41]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni sem er einn af þeim þingmönnum sem ég held allra mest upp á hér á þessu góða og háa Alþingi. Í sveitinni, þar sem er nú minn heimavöllur, enda er ég bóndi og Framsóknarmaður, er oft sagt að sígandi lukka sé best og vissulega taka sumir minni skref og færri á leið til bjartari tíma. Alla vega er þetta ákveðið skref í þá átt sem hv. þm. Brynjar Níelsson talaði um áðan. Ég vonast til þess að hann geti verið sammála mér um að þetta sé fyrsta skrefið. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hann sagði áðan varðandi ákveðna vöru, hvort sem það er áfengi, sykur eða eitthvað annað. Þetta snýst allt um að menn beri ákveðna virðingu fyrir þeirri vöru sem þeir höndla með í hvert skipti. Það er alltaf þannig. Og varðandi lýðheilsusjónarmið er fræðsla númer eitt, tvö og þrjú í því að menn gangi vel um þessar vörur og nýti þær með skynsamlegum hætti. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Hv. þingmaður fór yfir margt í ræðu sinni en svo að ég fari nú að ljúka þessu langar mig bara að spyrja hvort við getum ekki verið sammála því að þetta sé alla vega fyrsta skrefið. Ef menn vilja ganga lengra er a.m.k. búið að opna töluvert á ýmiss konar umræðu um þá hluti. Framsóknarþingmenn hafa meira að segja lagt fram frumvarp sem gengur örlítið lengra en frumvarp dómsmálaráðherra.