151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:46]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af hverju á þetta ekki við um alla? Það hljómar eins og ég sé kominn í andsvar við sjálfan mig. Þetta er orðið öfugt, þú verður að fyrirgefa það, virðulegur forseti. En á þá vegu: Af hverju á þetta ekki við um alla? Varðandi áfengisgjaldið getum við horft til þess — og ég held að við getum gert það, hv. þingmaður — að í handverksbrugghúsum er hver eining eðlilega dýrari en hjá stóru fabrikkunni. Það segir sig alltaf sjálft. Þar af leiðandi er líka mjög mikilvægt að einhverjar ívilnanir séu til minni brugghúsa varðandi þann þátt sem snýr að áfengisgjaldinu. Hitt er síðan önnur umræða að afnema einokun ríkisins á sölu á áfengi. Ef við förum í þennan þátt líka langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki fylgjandi þeirri leið varðandi minni framleiðslu og alla frumframleiðslu þar sem við erum með ákveðið hámark og ákveðið handverk. Við getum t.d. líka fært þetta yfir á Beint frá býli þar sem menn höndla með kjötvörur, grænmeti eða hvað sem það er. Þá þurfa menn ákveðnar ívilnanir, t.d. skattalega hvata, til að geta haft kaup fyrir það sem þeir eru að gera. Mig langar að bera það undir hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér í því.