Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég vil gera allt fyrir þá sem eru að framleiða eitthvað, skaffa fólki vinnu, vegna þess að ég sé samfélagslega hagsmuni í því og þó að þeir séu að framleiða áfengi. Ég vil bara ýta almennt undir frumkvæði fólks, fólks sem er að framleiða eitthvað, er með einhverjar nýjungar. En þá verður vera eðlilegt umhverfi fyrir slíka framleiðslu; að geta komist á markað, kynnt vöru sína o.s.frv. Ég er til í allar ívilnanir vegna þess að ég tel að ríkissjóður fái það allt til baka. Þannig á ríkið að nálgast atvinnulífið, leyfa því að hafa frumkvæði, leyfa því að blómstra. Þetta er kannski sérstaklega mikilvægt fyrir veikari byggðir landsins. Nú er auðvitað auðveldara að mörgu leyti, þegar ljósleiðaravæðingin, fjarskiptin og orkan er allt til staðar, fyrir atvinnulífið að blómstra meira úti á landsbyggðinni. Þessi bruggframleiðsla er eitt tækifærið. Mér finnst það alveg stórkostleg hugmynd og bara stórkostlegt fyrirbæri. Ég vil gera allt til að auka möguleika þessara fyrirtækja. Þess vegna finnst mér þetta allt saman ágætt, hv. þingmaður. Ég er tilbúinn í stærri aðgerð en þarna er til að slíkur atvinnurekstur eigi meiri möguleika á að fá að blómstra í fallegum byggðum landsins í staðinn fyrir að það sogist einhvern veginn allt hingað inn á Stór-Reykjavíkursvæðið. Þarna eru möguleikar. Ég tek undir það allt saman.