151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ef eitthvað er hafði ræða hv. þingmanns ákveðið skemmtanagildi. (Gripið fram í.) Ég hélt eitt andartak að ég væri staddur í málfundafélaginu í Versló fyrir 50 árum þar sem menn hentu fram rakalausum skoðunum án þess að þurfa nokkru sinni að standa við þær. Þetta kemur mér svolítið á óvart vegna þess að hv. þingmaður hefur jú starfað við rök og rökfræði allt sitt líf. Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða eitthvað svoleiðis sem er að fara svona með hann en ræðan var í sjálfu sér alveg rakalaus. Hann talaði þvert á öll lýðheilsusjónarmið og gerði heldur lítið úr þeim. Nú eru lýðheilsusjónarmið ekki eitthvað sem menn grípa úr loftinu, þau eru byggð á rannsóknum, rökum o.s.frv. Hv. þingmaður sagði, og það var ein af rangfærslunum í ræðunni, að framboð á áfengi á Íslandi hefði aukist stórlega af því að ríkiseinkasalan hefði fært út kvíarnar. Þetta er alrangt. Ríkiseinkasalan hefur sett upp nokkur útibú á landsbyggðinni til að leysa af pósthús sem voru lögð niður. Áfengissöluaukning undanfarin 30 ár er á veitingastöðum og það ætti hv. þingmaður að vita. Þeim hefur stórfjölgað. Það er því ekki ríkiseinkasala sem ber ábyrgð á þessari söluaukningu, það eru veitingastaðir o.s.frv. Viljum við fara aftur fyrir bjór? Nei. En hrein vínandaneysla á ári á mann á Íslandi hefur tvöfaldast frá 1989. Hvað gerir það? Talandi um lýðheilsu hefur það aukið krabbameinstilfelli mikið hér á Íslandi. Bólað hefur á skorpulifur. Nú veit ég að hv. þingmaður er sammála mér í því að á Íslandi eigi að vera lágir skattar. Þá verður maður að spyrja: Hvernig vill hv. þingmaður mæta þeim kostnaði sem óhjákvæmilega verður af stórauknu framboði áfengis? Hvernig vill hann mæta þeim kostnaðarauka sem verður í heilbrigðiskerfinu? Vill hv. þingmaður hækka skatta?