151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum ströngustu áfengislöggjöf í öllum hinum frjálsa vestræna heimi, þá ströngustu. Þetta snýst allt um aðgengi og það er alltaf sagt að rannsóknir sýni að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu. Það má vel vera að það auki neyslu í hreinu vínandamagni. Ef þú getur aldrei náð í áfengi nema að hafa mikið fyrir því þá drekkur þú minna af því. En vandinn snýst ekkert um það, vandinn snýst um það þegar menn misnota áfengi. Skorpulifur hefur ekki aukist neitt hér og þegar talað er um að hreint vínandamagn hafi tvöfaldast frá 1989 verða menn að taka inn í þá tölu að hingað koma 2 milljónir ferðamanna sem er fjórföld þjóðin. Menn geta leikið sér að tölum í þessu. Ég er bara að segja að það blasir við manni alls staðar að misnotkun á áfengi er ekkert minni hér á Íslandi, þrátt fyrir stranga löggjöf, en í öðrum löndum þar sem allt er opið. Þú getur farið út í matvörubúð og keypt áfengi. Allt í einu er menn búnir að finna það út að aukið aðgengi auki neyslu. Það kann að vera rétt að hluta til en það snýr ekki að þeim vanda sem við erum að glíma við í kringum áfengisneyslu. Og svo er þetta breytilegt, áfengisneysla ungs fólks hefur dregist saman. Rannsóknir sýna það, talandi um rannsóknir, þannig að þetta er ekki rökrétt.