151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef skorpulifur hefur aukist svona mikið kann það að vera vegna þess að við erum með svo vitlausa áfengislöggjöf? Af hverju eykst hún þegar við erum með ströngustu áfengislöggjöf í hinum frjálsa heimi (ÞorS: Af því að menn drekka á hverjum degi.) Ástæðan fyrir því að vínandamagnið hækkar er sú að bjór var leyfður. Hann er drukkinn allt öðruvísi, hann er hluti af matnum okkar. Aukning á vínanda á sér þær skýringar að þjóðin drekkur meiri bjór og meira léttvín en áður. (Gripið fram í: Og skorpulifur.) Gott og vel. Mér er alveg sama um þessa skorpulifur, fólk ber bara ábyrgð á sinni drykkju sjálft. Það sem ég er að segja er að þetta er ástæðan fyrir því að aukið aðgengi mun ekki breyta neinu í þessu. Aðgengi er ekkert vandamál, það eru búðir um alla höfuðborgina og veitingastaðir á hverju horni. En menn eru enn fastir í því að það verði að vera ÁTVR sem selur þessa vöru. Hvernig finna menn það út að það hafi áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar að starfsmenn ÁTVR séu þeir einu sem selja áfengi fyrir utan veitingahús? Þetta er einhver rökleysa og ég hef aldrei heyrt aðrar þjóðir í Evrópu öfunda okkur af áfengislöggjöfinni. Það dettur engri annarri þjóð þessi vitleysa í hug, hv. þingmaður, og hvergi í umræðunni heyri ég að aðrar þjóðir ætli að fara að snúa við frelsi í sölu áfengis til skandinavískra sjónarmiða. Ég hef aldrei heyrt það. Menn hlæja að okkur, því miður, enda full ástæða til að hlæja að okkur. Þetta er fornöld, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, og mun ekki hafa nein áhrif á lýðheilsu okkar.