151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ræðan mín sem hefur fært hv. þingmann 50 ár aftur í tímann. Mig grunar að hann sé búinn að vera 50 ár aftur í tímann mjög lengi. Ég er heldur ekki viss um að það að lesa skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar myndi ekki drepa mig, ég held ég myndi drepast úr leiðindum við að lesa þá skýrslu. Menn eru algerlega fastir í sama farinu. Það er enginn skortur á aðgengi að áfengi á Íslandi. Ég var ekkert að ræða það, það er enginn skortur. Spurningin er bara: Verða það að vera ríkisstarfsmenn sem selja þetta? Ég er bara að tala um afnám einkasölunnar. Aðgengið er nóg og það er alveg rétt að í vínandamagni hefur neyslan aukist alveg frá því að bjórinn var leyfður og eðlilega. En samt lifum við lengur og lengur. Mér er alveg sama hvað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir, menn eru algerlega fastir í sínum frösum. Allt miðast við það að misnotkun á áfengi er hættuleg heilsu og lífi fólks. Við vitum það. Þetta er alveg eins og með matinn af því hv. þingmaður minntist á að hann borðaði of mikið. Hvernig eigum við að bregðast við því? Ég segi bara við hv. þingmann: Þú berð sjálfur ábyrgð á mataræði þínu. Ég ætla ekki að ætlast til þess, af því að við glímum við offitu, að það verði bara ríkisstarfsmenn sem selja mat. Það dettur engum það í hug. Það dettur engum í hug, ekki einu sinni hv. þingmanni, að banna bjórinn aftur. Ég var að hlusta á sömu ræðu hjá hv. þingmanni og ég heyrði hér veturinn 1989 þegar menn voru að berjast gegn bjórnum, sama ræðan, sömu lýðheilsusjónarmiðin. Þetta er að fara 50 ár aftur í tímann, ekki ræðan mín. Það er bara þannig.