151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að ég sé 50 árum á eftir tímanum. Ef ég væri það væri áfengisdrykkja á mann á Íslandi af hreinum vínanda 3,5 lítrar en hún er 8,5 lítrar. Af hverju er það? Það er vegna þess að aðgengið hefur aukist. Verða það að vera ríkisstarfsmenn sem selja þessa vöru? Ekkert endilega en þetta virkar mjög vel. Ameríkanar hafa góðan málshátt sem segir: Ef það er í lagi, ekki breyta því. Og af því að ég veit að hv. þingmaður er áhugamaður um lága skatta og lágan tilkostnað hjá ríkinu ætla ég bara að benda á eitt atriði. Það kemur fram í frumvarpinu núna, eða alla vega í frumvarpi dómsmálaráðherra, að áfengisgjöld sem ÁTVR skilar á tíu daga fresti í ríkissjóð — það var eitt af því fyrsta sem kom fram þegar menn ætluðu að setja áfengi í verslanir, t.d. hjá Viðskiptaráði o.fl., að menn ætluðu ekkert að skila áfengisgjaldi á tíu daga fresti. Nei, þeir ætluðu að gera þetta eins og með vaskinn, á 60 daga fresti. Það hefði bara, herra forseti, haft þó nokkur áhrif á lausafjárstöðu ríkissjóðs á hverjum tíma, fyrir utan það að öll umhirða og allt eftirlit verður miklu dýrara. Það kemur t.d. fram í frumvarpinu sem nú er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd að með því að opna á brugghús, hvort sem það eru 500.000 eða 1.000.000 lítrar sem þau framleiða og selja, krefst það miklu meira eftirlits en er í dag, kostar miklu meiri peninga fyrir ríkissjóð. Ég veit að hv. þingmaður er ekki hrifinn af því. En kannski eigum við bara að hafa þetta eftirlitslaust. Það er náttúrlega ein hugmynd en ég held að hún sé ekki skynsamleg. Þótt hv. þingmaður blási á skoðanir sérfræðinga, ég vona að hann geri það ekki í öllum öðrum málum, þá er það samt þannig að málsmetandi sérfræðingar í mjög mörgum löndum hafa bent á það hve íslenska módelið og norræna módelið í sölu áfengis hefur góð áhrif lýðheilsulega.