151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður minntist á það að vínandamagn fyrir 50 árum hefði verið 3,5 lítrar en sé núna 8,5 lítrar. Hvað var þjóðin langlíf fyrir 50 árum? Ég er bara farinn að hallast að því að því meiri drykkja sem sé á þjóðinni því lengur lifi hún. Gæti það verið? Það má örugglega finna einhverja rannsókn þess efnis að við drekkum meira en við drukkum fyrir 50 árum á hvern mann og við lifum lengur núna en fyrir 50 árum. Auðvitað væri það ekki vísindaleg niðurstaða. Það eru margir aðrir áhrifaþættir. En í þessum lýðheilsurannsóknum, þar sem menn eru alltaf á móti þessu, reikna menn nákvæmlega svona, finna bara einhvern stað þar sem drykkja er minni eða meiri og draga ályktanir af því. Ég er bara að segja að misnotkun á áfengi er alltaf sú sama í grunninn. Það er ákveðinn hópur sem misnotar áfengi og ég hef alltaf haldið því fram að það séu aðrar ástæður fyrir því að fólk misnotar áfengi eða vímuefni yfir höfuð; að öll þessi sala, fyrir bara venjulegt fólk, og þetta aðgengi sé ekki heilsufarsvandamál í sjálfu sér. Ég stend alveg við þá skoðun og hún er alls ekki 50 ára gömul. Ég er ekki kominn 50 ár aftur í tímann. Ég er bara að segja að við verðum að viðurkenna ákveðinn veruleika. Veruleikinn er sá að við neytum þessarar vöru. Hún er hluti af matarmenningu okkar. Hún er hluti af okkur. Einhverjir misnota hana. Aðgengi er algerlega nóg. En ég vil bara að við stöndum jafnfætis öðrum í þessu, að þetta séu eðlileg viðskipti, eðlileg kynning á vörunni o.s.frv. Það eru eðlileg viðskipti.