151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans löngu og yfirgripsmiklu ræðu sem snertir, held ég, skalann frá A til Ö varðandi neyslu á áfengum drykkjum og lýðheilsusjónarmið. Varðandi lýðheilsusjónarmiðin langar mig að beina því til hv. þingmanns að aukningin í dag á lífsstílstengdum sjúkdómum, offitu, skorpulifur og alls konar heilsuleysi, er náttúrulega fyrst og fremst vegna þess að fólk hreyfir sig miklu minna núna en það gerði fyrir 50 árum. Ég held að flestir geti verið sammála um það. Menn neyta of mikils rusls, hvort sem er í mat eða drykk. Menn borða ekki nógu hollan mat og hreyfa sig of lítið. Það er stærsti þátturinn í því að lífsstílssjúkdómar hafa aukist. Alla vega skil ég sérfræðingana þannig. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því að áfengi geti verið skaðlegt ef þess er neytt í óhóflegu magni eða dagdrykkju. Vel má vera að dagdrykkja hafi aukist bara vegna þess að bjór kom á markaðinn. En ég vil líka benda á eitt, af því að hv. þingmaður hefur farið töluvert yfir neyslu á vínanda, að nú er ég töluvert yngri en hv. þingmaður en man þá daga vel þegar landi var bruggaður úti um allt, ég er alinn upp í sveit. Eftir að bjórinn kom þá hvarf landinn. Ætli landinn hafi nokkuð verið inni í þeim vínandatölum sem hv. þingmaður vitnar reglulega til?