151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur lifibrauð sitt af því að framleiða holla náttúruafurð sem er öllum til góða sem hennar neyta. Sem áhugamaður um næringu ætti hann að vita að eitt það fyrsta sem sagt er við fólk ef það vill megra sig er að taka út áfenga drykki af því að hitaeiningar í t.d. venjulegum bjór eru gríðarlega margar, gríðarlega. Hægt er að borða mörg kíló af lambakjöti án þess að verða fyrir sömu þyngdaraukningu og af því að drekka áfengt öl. Þeir lífsstílstengdu sjúkdómar sem hv. þingmaður minnist á, offita o.s.frv., eru nefnilega líka að hluta til áfengi að kenna, líka aukning á hjarta- og æðasjúkdómum. Ég tók bara krabbameinið fyrir hér áðan en það var auðvitað upptaktur. Menn myndu gera vel í því — og nú ætla ég ekki að fara að tala eins og bindindispostuli, sem ég er ekki, ég ætla ekki að tala eins og svarinn andstæðingur áfengis, sem ég er ekki. Það eina sem ég er að tala um er að þegar við tökum slíkar ákvarðanir eigum við að læra af ákvörðunum fyrri tíma. Við eigum ekki endilega að ganga með opin augun úti í sama forað og við höfum gert áður. Við eigum að læra af reynslunni. Reynslan kennir okkur að aukið framboð á áfengi eykur neyslu sem eykur hættu á sjúkdómum. Þetta vitum við. Síðan er það náttúrlega ákvörðun okkar, hvers og eins, í þessum sal hvort við tökum áhættuna af því sem við leggjum til. Það er náttúrlega hverjum manni frjálst en ég bendi á að við eigum þá alla vega að gera það vitandi vits.