151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram að ræða ýmis þingmál. Hér er þingmannamál frá Framsóknarflokknum um breytingu á ýmsum lögum vegna stuðnings við smærri innlenda áfengisframleiðendur. Það tengist áfengisgjaldi en fyrst og síðast sölu áfengis á framleiðslustað. Þetta mál er áhugavert fyrir margra hluta sakir. Sama dag og hæstv. dómsmálaráðherra fer í gegnum ríkisstjórn með mál sitt sem snertir nákvæmlega sama mál nema í minna magni, mjög svipað, mjög feimið frelsismál, kemur Framsóknarflokkurinn með þetta. Það er eins og stjórnarflokkarnir tali ekki alveg saman þarna. Ég skynja líka að það er ekki ríkur vilji á endanum til þess að taka eindregin frelsisskref. En ég vil þó taka undir þau orð sem hv. þm. Brynjar Níelsson hefur látið falla hér, af því að hann er hér í salnum, og þá nálgun sem hann hefur í þessum málum og ég deili þeim skoðunum.

En gott og vel, ég ætla ekki að fara í innansveitarkróniku ríkisstjórnarinnar. Ég segi: Þetta er fínt. En þetta er lítið, feimið frelsisskref. Ég virði það að styðja eigi við byggðasjónarmið, eins og stendur þarna, enda eru flest af þessum handverksbrugghúsum úti á landsbyggðinni. Þetta er nokkuð sem mér finnst að ætti að vera sjálfsagt og við ættum ekki að deila mikið um. Ég vil bara segja það strax að við í Viðreisn munum koma með breytingartillögu, bæði í tengslum við þetta mál en líka í tengslum við mál frá hæstv. dómsmálaráðherra, sem felur í sér annaðhvort afnám einokunarsölu eða einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu á víni, og hins vegar heimila netverslun. Það eru alvöruskref. Það eru skref sem við þurfum að stíga í ljósi þróunar, hegðunar og bara almennra frelsissjónarmiða. Ef við skoðum bara heitið Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem er núna komið í þennan fallega búning sem hefur meira aðdráttarafl, í boði ríkisins: Vínbúðirnar, er samt heitið á þessu ríkisfyrirtæki ÁTVR. Það segir okkur að á sínum tíma var einokun og einkaleyfi og ekki bara á áfengi heldur líka á tóbaki. Blessunarlega leyfðum við smásölunum, einkaaðilum á markaði að hefja sölu á tóbaki og við treystum þeim til að selja tóbak. Vorum við með því að segja: Við ætlum að opna á allt, við ætlum ekki að viðurkenna þau heilsufarsvandamál sem fylgt geta reykingum? — Og nú fá menn sér í vörina, það er líka föstudagur, það er allt leyfilegt. Ég segi: Guð forði okkur frá þessari forræðishyggju, í fyrsta lagi.

Í öðru lagi tek ég fram, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson áðan, að það er enginn að draga fjöður yfir að það eru vandamál, stundum stórkostleg, sem fylgja neyslu áfengis og vímuefna. En það er ekki háð því og það verður ekki minna af því að ríkið sjái um einokunarverslun á víni, bara alls ekki. Frá því að þessari sameinuðu verslun áfengis og tóbaks var komið á árið 1961 hefur viðskiptaumhverfið gjörbreyst og samfélagið er náttúrlega allt orðið miklu opnara. Við sjáum að vínveitingaleyfum um land allt hefur fjölgað og stöðum hefur fjölgað sem selja vín og bjór o.fl. Opnunartími áfengisverslana ríkisins, í boði ríkisins, hefur blessunarlega lengst. Það er orðið greiðara aðgengi að því leyti til fyrir það fólk sem kýs að kaupa áfengi og það er um land allt. Hægt er að draga fram þau gamalkunnu sannindi að verið er að selja vín á sumum stöðum á landsbyggðinni samhliða sölu á barnafötum, eða hvað það er. Það er ekkert að því. En þetta dregur samt fram þann skrýtna veruleika sem við höfum skapað, að þetta þarf að vera gert undir hatti ríkisins. Það er það sem við í Viðreisn bendum á og teljum vera ákveðna tímaskekkju.

Með því að afnema einokun ríkisins á vínsölu eða smásölu þegar kemur að víni er ekki verið að gera aðgengið greiðara, það er einfaldlega verið að færa þá sölu yfir á markaðinn. Það er rétt að geta þess að síðan bjórinn var leyfður — og vel að merkja, það er ekki lengra en svo að enn er þingmaður hér á þingi sem var á móti því að leyfa bjórinn, það er ekki lengra síðan. Það getur verið að það sé langt síðan en það er samt þannig að hér er þingmaður sem var á sínum tíma mótfallin bjórnum. Gott og vel. Ég er þeirrar skoðunar að einokunarfyrirkomulag ríkisins með þessa löglegu neysluvöru — við erum ekki að banna vín, það er ekki það sem við erum að gera, þá gæti ég skilið þá rökræðu sem átt hefur sér stað, þetta er lögleg neysluvara — hamli eðlilegri samkeppni að vissu leyti og skerði atvinnufrelsi fólks. Þess vegna styð ég þetta mál. Þetta er lítið og sætt mál, þetta er gott skref. En þetta er ekki það stóra skref sem ég hafði vonast til að sjá því að aukið frelsi í þessu máli myndi enn frekar styðja við mikilvæg byggðasjónarmið sem koma fram í þessu frumvarpi frá Framsóknarflokknum og ég veit að það gerir það líka í máli hæstv. dómsmálaráðherra.

Bent hefur verið á það í dag, m.a. af hálfu þingmanna Miðflokksins, að stór hætta væri fólgin í því að opna eitthvað frekar. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og leyfa einkaaðilum að selja slíkt gegn ákveðnum skilyrðum myndi sjálfkrafa auka vínsölu. Nei, ég held miklu frekar að við fengjum að sjá ákveðna þróun. Það myndi jafnvel ýta undir enn frekari nýsköpun á markaði. Við sjáum það bara frá því að bjórinn var leyfður 1. mars 1989 að við erum einmitt að upplifa þessi handverksbrugghús á landsbyggðinni af því að frelsið var aukið. Svigrúm var gefið og þá sjáum við þessa litlu sprota. Þess vegna finnst mér dæmið um bjórinn, það skref sem þá var stigið, dæmi um að þetta geti ýtt undir alls konar hugmyndir, sprota og nýsköpun víða um land sem við hefðum ekkert endilega verið að pæla í. Sá þingmaður sem var á móti bjórnum hér 1989 hafði ekki hugmynd um að það væri mál sem myndi síðan styðja við ákveðna grósku á landsbyggðinni.

Ég er á því að samhliða auknu frelsi, aukinni opnun, aukinni samkeppni, opnum við fyrir hugmyndir, farvegi fyrir nýsköpun sem við, með fullri virðingu fyrir okkur öllum sem erum hér í þessum sal, áttum okkur ekkert endilega á að séu mögulegar í rauntíma. Það er sýn mín og trú að slík mál séu til farsældar. En hvað þýðir það? Við verðum vissulega að taka lýðheilsusjónarmiðin alvarlega. Ég vil vekja athygli á því, eins og fleiri hafa gert, að frá árinu 1991 hafa Rannsóknir og greining, það mikilvæga rannsóknafyrirtæki, haft reglubundnar mælingar, fylgst mjög vel með og skoðað áfengis- og vímuefnaneyslu íslenskra ungmenna. Ég vil hrósa þáverandi menntamálayfirvöldum fyrir að hafa gert þennan samning við Rannsóknir og greiningu sem veitir okkur verðmætar upplýsingar og þekkingu á hegðun ungs fólks í ákveðnu umhverfi. Þessar samfelldu og markvissu mælingar Rannsóknar og greiningar hafa sýnt að áfengis- og vímuefnaneysla íslenskra ungmenna, sem var með því mesta innan OECD árið 1991, hefur á þessum 30 árum farið niður og mælist hvað minnst hér, ekki síst þegar kemur að áfengi.

Við sjáum aðeins breytingar á vímuefnum, en af því að við erum að tala um áfengi ætla ég að horfa á það. Allir flokkar, þvert yfir hina pólitísku línu, eiga heiðurinn af því að hafa komið að því að byggja upp markvissa sýn og stefnu og framkvæmd í lýðheilsumálum og í forvarnamálum akkúrat fyrir þennan viðkvæma hóp, nemendur sem eru að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, þannig að við höfum náð að lækka þetta svona. Það er afrek út af fyrir sig að við skulum hafa farið úr hvað mestri neyslu yfir í hvað minnsta neyslu í skólakerfinu innan OECD. Það segir okkur að lýðheilsusjónarmiðin skipta máli. Við í Viðreisn lögðum á sínum tíma fram, í máli frá árinu 2017 frekar en 2018, mál um afnám einokunar á ÁTVR á smásölu á áfengi, og jafnframt að 1% áfengisgjald færi upp í 5% og færi beint í lýðheilsusjóð til þess að viðhalda og efla enn frekar forvarnir. Þannig finnst mér að við eigum að nálgast þetta frekar en að vera með einhverjar ríkisstyrktar girðingar sem, þegar upp er staðið, skila engu öðru en einhverri hugmyndafræðilegri nálgun þeirra sem vilja alltaf að ríkið sjái um allt.

Við sjáum ákveðna birtingarmynd af því í heilbrigðismálunum þar sem ríkið á að sjá um alla þjónustu. Við sjáum afleiðingarnar af því, og það er reyndar annað mál, sem eru lengri biðlistar, en ég ræði það á öðrum vettvangi. Ég hef ekki þá trú að aukið frelsi í áfengismálum muni stuðla að aukinni neyslu, þvert á móti. Ég held að við eigum einfaldlega að viðurkenna að ríkisvaldið sjálft þarf ekki að sjá um smásölu á áfengi. Þetta er lögleg neysluvara. Við erum búin að segja: Við ætlum að leyfa hana. Þá er ekki þar með sagt að ríkisvaldið þurfi að sinna því. Það er hlutur sem við viljum leggja áherslu á og ég undirstrika að við munum koma með breytingartillögur við þetta mál, sem og mál dómsmálaráðherra, í ákveðna frelsisátt. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) hafa fengið ótal tækifæri á þessu þingi til að taka þessi litlu, mikilvægu frelsisskref í ýmsum málum. Má ég til að mynda benda á tillögu okkar í Viðreisn um að leyfa smásöluverslunum að selja ákveðnar tegundir af lyfjum eins og paratabs og magnyl og eitthvað … (Gripið fram í.) — Já, en hv. þingmaður felldi þá tillögu fyrr á þessu þingi. Það hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins því miður gert og þeir felldu líka tillögu okkar um að fella niður mannanafnanefnd. Ég veit að hv. þingmaður var allan tímann á móti því að fella hana niður en það er önnur saga. En ég vona að þingmenn Sjálfstæðisflokksins segi já við þessum breytingartillögum okkar, og ég vona að það sé ekki bara vegna þess að það eru kosningar eftir hálft ár. Ég vona að þeir geri það af því að þeir trúi því í raun að stíga þurfi ákveðnari skref í frelsisátt sem fela það á endanum í sér, að mínu mati, að skynsamlegast sé að afnema einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og afhenda þá smásölu einkaaðila. Ég held að það muni, eins og ég gat um áðan, fela í sér ákveðna grósku, ákveðna nýsköpun o.fl., eins og við höfum upplifað á þessum tíma frá því að við leyfðum bjórinn varðandi handverksbrugghúsin. Við höfum séð alls konar framleiðslu og alls konar bragð, sem er mjög skemmtilegt og getur líka verið tengt við landshluta. Það frábæra fólk sem stendur að þessu dregur t.d. fram sérkenni Vestmannaeyja í bruggmálum, en þar er annað bragð en við finnum norður í landi og það er bara ótrúlega gaman. Það eru svona hlutir sem gerast samhliða frelsinu og trúnni á að með því að fela einstaklingunum ákveðna umsjón þá spretti eitthvað fallegt upp.

Um leið og ég fagna þessu máli undirstrika ég að ég hefði viljað sjá miklu stærri skref. En lítil skref eru skref. Þau munum við styðja í þessum málum og ýta eftir því að þessi mál komist sem fyrst út úr nefnd og að þingmenn, bæði í meiri hluta og minni hluta, fái tækifæri til að greiða atkvæði með stærri skrefum í frelsisátt á þessu sviði.