151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega flóknar ástæður fyrir því að við lifum lengur og erum heilbrigðari þótt vissulega sé rétt hjá hv. þingmanni að hluti af því séu takmarkanir á sölu eiturefna, t.d. í málningu eða eiturefna sem eru notuð í ísskápa eða hvaðeina. Alls konar ástæður eru fyrir því, auðvitað einnig aukin meðvitund um hollt líferni, mataræði og þess háttar. Eins og ég segi er það mjög flókið og mjög margar ástæður fyrir því.

Ef hv. þingmaður vill koma til mín þeim skilaboðum að lýðheilsa eigi ekki að trompa frelsið hefur hann bandamann í þessari pontu hér og nú. Mér hefur stundum þótt furðulegt hvernig lýðheilsa er notuð sem einhvers konar trompspil gegn frelsissjónarmiðum vegna þess að þegar við tölum um heilsu einstaklinga er enginn vafi á því að við erum að tala um einhver persónulegustu mál einstaklingsins. Það eru fá gögn, t.d. hjá læknisembættum eða í samfélaginu almennt, sem við verjum betur og af meiri eldmóði en heilsufarsskrár. Þau eru það persónuleg. Þetta skiljum við öll þegar við horfum á einstaklinginn og heilsufarsupplýsingar um hann.

En þegar við tökum heilsufarsupplýsingar allrar þjóðarinnar og troðum þeim í graf og notum fallega liti er það allt í einu farið að skipta alla einstaklinga í samfélaginu máli. Það þykir mér pínulítið skekkt mynd af því hvernig við eigum að líta á lýðheilsu. Ég er ekki á móti því að við lítum til hennar en mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því hvert markmiðið er. Markmiðið hlýtur alltaf að vera það að við aukum möguleika einstaklingsins á því að bæta heilsu sína og mælum lýðheilsu til að ná því markmiði frekar en að setja bönn, bara til að gera borðspilið okkar fallega eða betra, eins og ég fór yfir í ræðu minni. Ég hygg því að við hv. þingmaður séum nokkurn veginn sammála um þetta. Að því sögðu finnst mér líka mikilvægt, eins og ég sagði í ræðu minni, að við höfum augun opin fyrir því að þegar við köllum eftir meira frelsi getum við að einhverju leyti verið að kalla eftir auknum fórnum. (Forseti hringir.) Ég er til í það en mér finnst mikilvægt að við gerum það þá upplýst og meðvitað og séum bara með það á hreinu. (Forseti hringir.) En ég hygg ekki að við hv. þingmaður séum ósammála þótt (Forseti hringir.) tónninn í ræðum okkar geti stundum gefið það til kynna.