151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[16:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Forseti. Ég vildi bara hafa örræðu í lokin vegna þess að ég held að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafi komið inn á mjög mikilvægan punkt í þessu öllu saman: Alltaf þegar við reynum að fara í einhvers konar frelsisátt, gera okkur samkeppnishæfari, þá erum við barin í hausinn með rannsóknum um lýðheilsusjónarmið. Við gætum gert þetta með hvað sem er þá. Við gætum haft verulegar takmarkanir á því hvað fólk borðaði, léti ofan í sig. Við gætum haft verulegar takmarkanir á því hvernig fólk eyddi frítíma sínum, í áhugamál o.s.frv. Þetta er svo mikilvægur punktur. Við komumst ekkert áfram í þessari umræðu vegna þess að menn berja okkur í hausinn með lýðheilsusjónarmiðum.

Ég segi bara: Við þurfum að komast út úr þessu. Ég tel það mikilvægt fyrir samfélagið að við lærum betur að taka ábyrgð á okkur sjálfum, taka eigin áhættu ef okkur sýnist svo, berum ábyrgð á því sem við gerum og látum ofan í okkur. Vissulega getur það í einstökum tilvikum haft skaðleg áhrif hjá þeim sem ekki eru skynsamir í þeim málefnum. En ég met frelsið svo mikils að ég tel að stóru hagsmunirnir séu frelsið frekar en að einhver gæti farið sér að voða ef við leyfum þetta eða fleiri gætu farið sér að voða.

Þetta er alveg sama umræðan og ég verð var við núna um spilakassa. Ég hef engan áhuga á spilakössum, mér finnst það eitt það fáránlegasta sem ég sé. En við vitum að margir, kannski ekki margir en einhverjir á hverjum tíma, eyða öllum sínum peningum í þá. Fíknin er svo gífurleg. Fíknin hverfur auðvitað ekkert þótt spilakassarnir hverfi. Hún brýst út með einhverjum öðrum hætti. En mönnum finnst alveg réttlátt að banna fólki, öllu fólki, að spila í spilakassa í staðinn fyrir að þeir sem glíma við vandann taki ábyrgð á honum sjálfir, leiti sér aðstoðar, geri það sem gera þarf. Nei, þá er viðkvæðið þetta: Við bara bönnum þetta. Menn segja: Það er meiri hluti fyrir því. Auðvitað er meiri hluti fyrir því, meiri hlutinn spilar ekki í þessum kössum. En það er líka meiri hluti þjóðarinnar sem spilar ekki fótbolta eða spilar ekki einhverja íþrótt eða gerir ekki eitthvað annað. (Gripið fram í: … banna það. ) Já, ég meina, hvaða heilsutjón halda menn að sé af keppnisíþróttum? Það er gífurlegt heilsutjón. Ég er með fyrrverandi afreksmann í íþróttum í forsetastóli. Ég er ekki að segja að hann sé farlama, ég er bara að segja að allt þetta frelsi, að hegða sér svona, að taka þátt í keppnisíþróttum, hefur útgjöld í för með sér. Auðvitað dettur engum í hug að banna keppnisíþróttir. Það er kannski af því að svo margir hafa áhuga á að horfa á þær en fáir hafa áhuga á spilakössum.

Mig hefur alltaf undrað þetta með áfengið, að jafnvel menn sem staupa sig reglulega séu enn fastir í því að það eigi bara einhverjir ríkisstarfsmenn að afgreiða þá með áfengi. Fólk er að vísu mjög fegið að aðgengi er miklu betri en það var áður en menn eru samt einhvern veginn: Ef við leyfum einkaaðilum að selja áfengi fer þjóðin á annan endann. Hún gerir það auðvitað ekkert. Þjóðin er bara eins og hún er og það eru alltaf einhverjir sem misstíga sig. Það eru alltaf einhverjir fíklar í hverju sem er. Það sem við eigum að hugsa um er að geta gripið undir það og aðstoðað fólk, verið með virkar forvarnir, verið með áróður, allt mikilvægt. Gerum það en leyfum fólki að taka ábyrgð á eigin lífi, leyfum því að vera frjálsu. Þá held ég að samfélagið verði þrátt fyrir allt miklu betra, þótt við getum einhvers staðar veifað því að einhver hafi skaðað sig. Frelsið er svo mikilvægt en við vanmetum það. Það er eins og við höfum gleymt að tala um það og þá fjarar það út og við gleymum okkur.