151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

þjóðsöngur Íslendinga.

501. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um þjóðsöng Íslendinga þannig að 1. gr. verði svohljóðandi:

Þjóðsöngur Íslendinga er „Til hamingju Ísland“ eftir Silvíu Nótt með — nei, fyrirgefið, virðulegur forseti, þetta er rangt skjal, þetta er fyrir næsta kjörtímabil. Afsakið þetta.

Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir fjallar um að afnema 3.–6. gr. laganna, sem fjalla ekki um það hver þjóðsöngurinn sé eða hver eigi hann heldur það hvernig skuli flytja hann, við hvaða tilefni megi flytja hann, hver úrskurði um ágreining um það hvernig hann sé fluttur og síðast en ekki síst hverjar refsingarnar séu við því að brjóta þessi lög. Þannig er nefnilega mál með vexti að 1. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga er þannig að þjóðsöngur Íslendinga sé „Ó, guð vors lands“, ljóð Matthíasar Jochumssonar og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Við því er ekki hróflað með þessu frumvarpi, virðulegi forseti.

Í 2. gr. laganna er fjallað um að þjóðsöngurinn sé eign íslensku þjóðarinnar og að ráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti á honum. Við því er ekki heldur hróflað, virðulegi forseti. En í 3. gr. kemur fram þessi skemmtilega setning, með leyfi forseta:

„Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni.“

Ef hlustendum þykir þetta ákvæði fáránlegt þá hefur það sjónarmið talsmann hér í pontu.

Forsaga þessara laga er frekar áhugaverð. Kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafn Gunnlaugsson bjó til kvikmynd snemma á 9. áratug síðustu aldar, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema það að sú kvikmynd fór í taugarnar á forsætisráðherra. Í kjölfarið ákvað forsætisráðherrann að banna það sem fór í taugarnar á honum og setti þessi lög. Það er nefnilega þannig að í kvikmyndinni var þjóðsöngurinn fluttur en ekki í upprunalegri mynd. Hann var fluttur í einhvers konar djassútgáfu. Ég hef ekki enn þá komist í það að sjá umrædda mynd, verð ég að viðurkenna, en mér skilst að flutningurinn hafi ekki fallið alveg í kramið hjá öllum og sumum fundist hann ekki flottur, ekki vel farið með þjóðsönginn. Þegar Íslendingum líkar illa við eitthvað sem sagt er eða birt eða jafnvel sungið er þeim tamt að banna það, og það er það sem var gert á 9. áratug síðustu aldar, af þáverandi hæstv. forsætisráðherra.

Vonandi er þessi saga orðin að einhvers konar brandara, en það þarf samt sem áður að laga þessi lög, virðulegi forseti, ekki síst með hliðsjón af 6. gr. laganna, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Það er sem sé fangelsisrefsing við því í gildandi lögum á Íslandi að syngja þjóðsönginn öðruvísi en í upprunalegri mynd. Sem betur fer er tjáningarfrelsisákvæði íslensku stjórnarskrárinnar ekki frá níunda áratug síðustu aldar heldur frá útlöndum og var sett inn í stjórnarskrána okkar á 10. áratug síðustu aldar. Gera má ráð fyrir því að þessi lög stæðust ekki þær kröfur ef málið endaði fyrir Hæstarétti í dag. Ég vona og hygg að þessi lög þyki þó það fáránleg að mál myndu aldrei enda þar. Þó þykir mér mikilvægt að hreinsa almennt úr landslögum ákvæði sem standast í fyrsta lagi líklega ekki stjórnarskrá og eru í öðru lagi einfaldlega fáránleg. Um það fjallar þetta tiltekna frumvarp. Ég vil nefna það vegna þess að í hvert einasta sinn sem ég legg þetta mál fram, eða öllu heldur í hvert einasta sinn sem fjölmiðlar fjalla um þetta mál, fæ ég, og kannski fleiri Píratar, ákúrur um að setja þetta í fyrsta sæti.

Ég vil bara taka fram að ég skrifaði þetta frumvarp einhvern tímann á laugardagskvöldi heima hjá mér vegna þess að ég heyrði frétt um að mögulega hefði Katrín Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, gerst brotleg við lögin og einhverja umræðu um þetta, þannig að meiri var ekki áfergjan í að breyta þessum lögum. Þetta er ekki málið sem ég myndi leggja fram, ef ég fengi að velja eitt mál til að leggja fram. Mér finnst þetta einfalt, mér finnst þetta sjálfsagt, mér finnst alveg þess virði að eyða tveimur klukkutímum á laugardagskvöldi í að afnema þessa vitleysu. Persónulega finnst mér að ekki ætti að þurfa neitt meira en það og finnst að þetta ætti að fljúga í gegn. Persónulega finnst mér reyndar líka að það ætti að vera stjórnlagadómstóll á Íslandi sem myndi afnema þessi lög sjálfkrafa við það að á þau yrði reynt.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Mér finnst þetta frumvarp tala fyrir sig sjálft. Mér finnst ótrúlega skrýtið að þurfa að standa hér í pontu árið 2021 og þurfa að færa einhver sérstök rök fyrir jafn sjálfsagðri breytingu. Ég læt það liggja milli hluta en legg til að frumvarpið gangi til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar og legg að lokum til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.