151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

skimun á landamærum.

[13:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að gera engar breytingar á landamærunum. Smit á landamærunum er til staðar og þar grasserar breska veiran. Við sjáum afleiðingarnar í Noregi, m.a. í Ósló, og fleiri ríkjum. Sóttvarnalæknir lagði til að börn yrðu skimuð og nú koma nýjustu fréttir um að þeir sem eru utan Schengen og eru bólusettir geti komist til landsins. Ég spyr: Ef þeir eru með börn fá þau að koma inn? Fara þau ekki í skimun? Nú kemur í ljós að börn smitast af bresku veirunni. Ég spyr því: Hvað er verið að gera og hvers vegna er verið að fresta þessu fram yfir páska? Talað er um ferðamenn. Er verið að bjóða veirunni inn? Við vitum að við rétt sluppum við að hún væri komin á fleygiferð hér aftur. Hvers vegna í ósköpunum förum við ekki að orðum sóttvarnalæknis og opnum sóttvarnahús og sjáum til þess að veiran komi ekki inn? Við þurfum ekki að gera það nema í þrjá mánuði. Hugsið ykkur, þrjá mánuði. Og hugsið ykkur ávinninginn af því ef við sjáum til þess að veiran komi ekki inn í landið. En hvað gerist ef hún kemst inn? Við vitum það. Þá þurfum við að loka öllu aftur í staðinn fyrir að við gætum opnað allt um páskana og þyrftum ekki að vera með algera haftastefnu. Ég skil þetta bara ekki. Við vitum líka að ákveðinn hluti þeirra sem hingað koma og eiga að fara í sóttkví gerir það ekki. Það er ekkert eftirlit. Það eru 2–5% sem brjóta þetta og þess vegna komst veiran út í samfélagið síðast. Hvers vegna í ósköpunum vorum við í velferðarnefnd að flýta okkur að koma sóttvarnalögunum í gegn svo við hefðum þetta tækifæri? Og hvers vegna er það ekki notað núna? Pössum okkur á þessari veiru yfir páskana, hleypum henni ekki einu sinni inn.