151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

færsla reksturs hjúkrunarheimila og réttindi starfsfólks.

[13:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og spyr aftur: Er hún tilbúin til að lýsa því yfir að gengið verði frá samningum og yfirfærslunni þannig að störf þessa starfsfólks og réttindi þess færist yfir, með vísan til laga um aðilaskipti? Þó að stjórnvöldum beri ekki skýr lagaskylda til að fara eftir þeim lögum, um það er reyndar deilt, þá þurfa þessir starfsmenn og við í hv. velferðarnefnd að fá skýr svör um það. Ábyrgðin liggur hjá ríkisstjórninni, hjá stjórnvöldum, ekki hjá sveitarfélögum, því að lögin eru þannig að ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila er á hendi ríkisins. Það eru sex og átta mánuðir frá því að sveitarfélögin sögðu upp þessum samningum og allan þann tíma hafa þau verið að reyna að ná samkomulagi en þó þannig að því hefur ávallt verið lýst yfir að réttindi og störf starfsfólks séu tryggð við yfirfærsluna. Það breyttist hins vegar fyrir tíu dögum síðan og þess vegna kalla þau eðlilega, og við öll núna, algerlega þvert á flokka í hv. velferðarnefnd, eftir skýrum svörum um hvort við þurfum að fara í þessa ónauðsynlegu lagasetningu til þess að ríkisstjórnin svari kalli starfsfólks rekstraraðila og núna hv. velferðarnefndar.