151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnumál innflytjenda á Suðurnesjum.

[13:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og taka undir með hv. þingmanni að þetta verkefni, ráðgjafarstofa innflytjenda, fer vel af stað. Þetta er ekki ríkisstofnun heldur samstarfsverkefni fjölmargra aðila og stofnana sem með einum eða öðrum hætti tengjast málefnum innflytjenda og er til komið vegna þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður flutti hér á Alþingi, var samþykkt þar og mér sem ráðherra var falið að fylgja henni eftir.

Hins vegar segi ég líka að það sem nú er í gangi er tilraunaverkefni. Komin er reynsla á það en þó eru ekki nema nokkrar vikur, það hleypur ekki á neinum tugum vikna, sem reynslan er. Jú, þetta verkefni lofar góðu þannig að vel kann að vera að skynsamlegt sé í framhaldinu að skoða frekari staðsetningar. Þá er Reykjanesið auðvitað nærtækt eins og hv. þingmaður nefnir hér. Það er hátt hlutfall innflytjenda á Reykjanesi og í Reykjanesbæ þannig að mér finnst það spennandi kostur og Reykjanesbær hefur nálgast ráðuneytið í þessum tilgangi á fyrri stigum. Ég held samt að aðeins meiri reynsla þurfi að komast á málið áður en hægt verður að taka formlega ákvörðun um það. Á meðan eru stofnanir ráðuneytisins, eins og til að mynda Vinnumálastofnun, með útibú í Reykjanesbæ og þar hefur starfsfólki verið fjölgað. Mér finnst spennandi að skoða þennan möguleika þegar aðeins meiri reynsla kemst á ráðgjafarstofu innflytjenda sem sett var upp sem tilraunaverkefni á höfuðborgarsvæðinu.