151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að taka þessa umræðu upp og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Það sem mér finnst merkilegast við það sem fram kom í ræðu ráðherra er sú ótrúlega upphæð sem hann benti á að fólk fengi frá sveitarfélögunum, 160.000–220.000 kr. á mánuði. Við verðum líka að átta okkur á því að þetta er ekki rétt tala í sjálfu sér vegna þess að ef um hjón er að ræða þá byrjar upphæðin að skerðast við 340.000 kr. hjá Reykjavíkurborg. Þannig að við erum að tala um upphæð sem fólk getur ekki á nokkurn hátt lifað af, það er ekki möguleiki. Það setur líka stórt spurningarmerki við atvinnuleysisbæturnar sem eru í dag rétt um 307.000, ef ég er með rétta tölu, hversu ótrúlega lág tala það er. En ljósið er komið. Við erum búin að fá staðfestingu á því hvað það er sem við þurfum á að halda til að lifa með smáreisn: 472.000 kr. Það er það sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra kynnir hér að þurfi til þess að lifa af. Ég trúi því að þetta sé staðfest og að núna verði þetta bara sett inn sem lágmarksviðmið hjá félagsmálaráðuneytinu um það sem fólk þarf að hafa til að lifa. Þetta eru um 350.000 kr. eftir skatt. Það segir okkur að við ættum strax að sjá til þess, út frá þessu tölu, að fólk fái 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust að lágmarki strax. Við getum ekki og eigum ekki að leyfa okkur það ofbeldi, þetta fjárhagslega ofbeldi, að henda fólki í svona ótrúlega pytti þar sem það á ekki möguleika á að framfæra sér heldur þarf að fara í biðröð eftir mat. Þetta er það sem við þurfum að stefna strax að leynt og ljóst.