151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég held að fjallað hafi verið nokkuð vel um langflest atriði sem snúa að þessu frumvarpi og má segja að ég sé í grundvallaratriðum sammála því sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan, þannig að ég ætla ekki að eyða of miklu púðri í að endurtaka það sem hann hefur sagt, enda væri það álíka mikið glapræði og það að þjóðkirkjan sé í rauninni jafn tengd ríkinu og tilfellið er.

Það er ánægjulegt og jákvætt að verið sé að reyna að fara í áttina að því að þjóðkirkjan verði sjálfstæðari, ég myndi að sjálfsögðu helst vilja að hún væri alveg sjálfstæð, enda er erfitt að láta sér detta í hug önnur samtök í samfélaginu sem myndu sætta sig við eða falast eftir því að vera sérstaklega tengd ríkinu á einhvern hátt. Myndi einhver Kiwanisklúbbur gera það? Myndi Sláturfélag Suðurlands gera það? Myndi Vínbúðin — Vínbúðin er kannski vont dæmi, enda er hún vissulega ríkisstofnun. En það er eitthvað sem við ættum kannski líka að breyta. Það er samt alveg ljóst að samtök af hvaða tagi sem er, sem eru ekki endilega fyrir alla landsmenn, eiga helst að vera sjálfstæð og ekki tilheyra ríkinu með neinum hætti. Það sem það felur auðvitað í sér er rekstrarlegur, stofnanalegur og ekki síst bókhaldslegur aðskilnaður.

Ef einhvers konar fjármunir færast á milli ættu þeir að gera það á jafnræðisgrundvelli við önnur samtök af sama tagi. Það er það sem mig langar að fjalla örlítið um, enda er það svo að þjóðkirkjan er með allt aðra stöðu en önnur trúfélög á Íslandi. Öll trúfélög fá sóknargjöld en í ofanálag fara sérstakir fjármunir til þjóðkirkjunnar. Grundvöllurinn þar er fyrst og fremst hið svokallaða kirkjujarðasamkomulag. Mér finnst það alltaf vera svo áhugavert verkfæri vegna þess að hér er um að ræða samning milli tveggja aðila, þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins, sem snýst í rauninni um það að annar aðilinn fái til sín eignir, þ.e. kirkjujarðirnar sem um ræðir, og hinn aðilinn fái ákveðna greiðslu, nema í flestum samningum væri það tilgreint mjög skýrt, þannig að það væri algjörlega afdráttarlaust hvaða eignir væri um að ræða. Það væri líka tilgreint mjög skýrt, þannig að það væri algjörlega afdráttarlaust, hvert verðmæti þeirra eigna væri og þar væru skilyrði um uppgjör sem m.a. fjalla um það hversu mikið eigi að greiða í heild, hvernig það sé gert, hvernig greiðsla fari fram og hvenær greiðslu ljúki. Eftir því sem ég hef næst komist er eingöngu farið í eitt af þessum atriðum, þ.e. hvernig greiðslu er háttað, svona almennt séð, á einhvern hátt í þessu samkomulagi. Hér erum við að tala um sérstakar greiðslur til þjóðkirkjunnar fyrir jarðeignir sem hafa ákveðið endanlegt verðmæti en greiðslurnar eru óendanlegar í tíma. Þær halda áfram endalaust og eftir sit ég, vitandi ekki mikið meira en ég veit, og spyr sjálfan mig: Hvaða jarðir eru þetta? Hversu mikils virði eru þær? Hvenær höfum við borgað nóg? Hvenær er ríkið búið að borga nóg fyrir þessar jarðir? Þetta eru spurningar sem ég held að við verðum að svara töluvert betur ef við ætlum í alvöru að færast í áttina að einhvers konar sjálfstæði fyrir þjóðkirkjuna.

Ég hugsa að þessi viðbót sé nóg enda fór hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson mjög vel yfir alla aðra punkta málsins.