151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[17:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að halda ræðu að beiðni minni svo að ég kæmist í ræðustólinn. Ég er innilega þakklátur. Ég ætla ekki, frekar en margir aðrir þingmenn hér, að tala mikið um frumvarpið sem slíkt. Ég er í aðalatriðum sáttur við það að sjálfstæði þjóðkirkjunnar frá ríkisvaldinu sé aukið. Það er bara hið besta mál. Það kann að vera að ég myndi vilja hafa einhver atriði öðruvísi en ég ætla ekki að gera mikið mál úr því og mun auðvitað styðja þetta frumvarp í öllum aðalatriðum. Ég ákvað hins vegar að koma hingað upp í ræðustól til að fara aðeins yfir ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar og þann, að mér finnst, misskilning sem þar gætir, mótsagnir í raun og veru við svo margt annað sem hv. þingmaður hefur sagt og gert. Ég fann mig knúinn til að koma hingað upp.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talar um forréttindi þjóðkirkjunnar, ójafnræði þjóðkirkjunnar gagnvart öðrum trúfélögum o.s.frv. Við verðum að byrja að átta okkur á því að í stjórnarskrá okkar er sérstakt ákvæði um þjóðkirkju sem gerir ráð fyrir að við styðjum hana. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var svo hissa á að við værum með sérstök lög um þjóðkirkju. Okkur ber auðvitað að hafa sérstök lög um hana alveg eins og við höfum sérstök lög um Ríkisútvarpið af því að við höfum ákveðið að hafa algjört ójafnræði á fjölmiðlamarkaði sem enginn hefur áhyggjur af. Menn hafa alltaf áhyggjur af þjóðkirkjunni, hún gerir þó eitthvert gagn. Menn geta ekki hugsað sér að einhver annar selji áfengi en ÁTVR, það er nú allt jafnræðið þar. Hvorki RÚV né ÁTVR er með ákvæði í stjórnarskrá en það er þjóðkirkjan. Ég skil ekki þessa umræðu. Fyrir utan það er búið að láta reyna á þetta ójafnræði fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og dómstólunum hér. Hvað sagði Mannréttindadómstóllinn, sem menn hanga oft í, sem er að vísu varla hægt að kalla dómstól? Hann kom með gott og fínt álit. Þar er sagt: Það er ekkert því til fyrirstöðu, alveg eins og við ákveðum að einhver sinni einhverri þjónustu sem við ákveðum að styðja umfram aðra. Við getum horft fjárlögin á hverju ári, hv. þingmenn, þar sem sumir, sem við teljum gagn að, einhver frjáls félagasamtök, fá pening, meðan önnur sem eru að gera það sama fá ekki pening, enga fjármuni. Við erum alltaf að þessu. Af hverju? Af því að við metum sumt meira en annað sem við teljum til gagns fyrir samfélagið og sannarlega hefur þjóðkirkjan gert mikið gagn. Hún veitir alveg ótrúlega þjónustu. Fólk þarf ekki að vera í þjóðkirkjunni til að fá þá þjónustu. Það er vegna þess að við skyldum þjóðkirkjuna til að gera það. Ég hef alltaf á tilfinningunni að margir þingmenn hafi enga tilfinningu eða þekkingu eða vitneskju um það hvað þjóðkirkjan er yfir höfuð að gera og hvaða skyldur hún hefur umfram aðra.

Ég er kannski ekki mikill þjóðkirkjumaður sjálfur, þá sjaldan sem ég fer í kirkju er ég alltaf spurður: Hvar felurðu hornin og halann? En ég veit alveg hvaða gagn þjóðkirkjan gerir, hvað kristnin er mikill hluti af arfleifð og sögu þessarar þjóðar. Og af því að hér er líka frumvarp um að koma á almennilegri kristinfræðikennslu þá finnst mér jafn fáránlegt að kenna ekki kristinfræði og að kenna ekki Íslandssögu. Það eru gjörsamlega órjúfanleg bönd þar á milli, fyrir utan það að ef menn ætla að hafa sæmileg tök á íslenskri tungu þá þurfa þeir að lesa kristinfræði. Þetta er hluti af menningararfleifð okkar. Þetta er hluti af sögu okkar. Þetta er svo mikilvægt. En ég er ekki alltaf ánægður með þjóðkirkjuna, mér finnst hún oft fara alveg hræðilega út af sporinu, sérstaklega þegar hún blandar sér í einhverja samfélagsumræðu, en ég veit að hún gerir stórkostlega mikið gagn. Ég veit að hún veitir stórkostlega góða þjónustu. Það vita allir sem eru aðeins komnir til ára sinna.

Hér hefur komið líka til tals að mönnum finnst svo mikið ójafnræði að meiri fjármunir skattgreiðenda renni til þjóðkirkjunnar en annarra trúarsöfnuða. Þá verður ekkert fram hjá kirkjujarðasamkomulaginu litið. Mönnum getur fundist það alveg ómögulegur samningur, alveg fráleitt að gera hann o.s.frv. en við getum ekki gert slíka samninga, hirt til okkar verðmæti upp á marga milljarða og sagt: Ja, þetta er bara svo mikið ójafnræði, við getum ekki borgað ykkur neitt. Það er auðvitað ekki þannig. Menn geta reynt að semja til baka eitthvað, gott og vel, þá gera menn það bara. En þetta snýst í raun og veru ekki um kirkjujarðasamkomulagið. Þetta snýst um það að við höfum enn þá ákvæði í stjórnarskrá. Þótt menn séu jafnvel á móti því þá er það þarna enn þá. Þá skulum við bara styðja þessa kirkju, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ekkert flóknara en það, fyrir utan það að hún er raunverulega að gera okkur stórkostlegt gagn.

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn er búinn að blása nóg.

(Forseti (ÞorS): Enn fær hv. þm. tækifæri til að blása því nú veitir andsvar hv. þm. 10. Suðurk., Smári McCarthy.)