151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[17:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kirkjan er þegar einkavædd, þetta er frjálst félag. Í sjálfu sér er ekki endilega rétt að ég vilji losna við RÚV. Ég get alveg sætt mig við einhverja þjónustu af hálfu ríkisvaldsins sem aðrir sinna ekki. Þjónusta RÚV getur að hluta til verið þar. Ég get alveg skilið að menn vilji ekki hafa neina þjóðkirkju. Ég geri enga athugasemd við þá skoðun. Menn segja: Þetta eru allt frjáls félög. Ef eitthvað af þessum félögum sinnir einhverri þjónustu sem við teljum að gagnist samfélaginu getum við hugsanlega styrkt það með einhverjum hætti, eins og við erum alltaf að gera við alls konar félög, almannaheillafélög og hvað þetta heitir allt saman. Ég geri enga athugasemd við þá skoðun. Það sem ég geri athugasemd við er að ef menn telja þetta brot á einhverju jafnræði eða eitthvað slíkt þá gerum við það nánast í öllu sem við gerum. Ég er auðvitað þannig maður að ég vil að hlutverk ríkisvaldsins sé sem allra minnst. Þar sem fólkið sjálft getur sinnt þjónustunni, jafnvel með skilvirkari hætti, betri hætti, meira í sjálfboðavinnu, með minni kostnaði, vil ég að fólkið sjálft sjái um hana. En ég geri mér alveg grein fyrir því að það er margt sem ríkið verður að gera því að kannski er enginn annar fær um það með eðlilegum hætti. Ég geri enga athugasemd við þá skoðun. Ég er bara að segja að það er ákvæði um þetta í stjórnarskrá, þetta telst ekki ójafnræði. Það eru settar skyldur á þjóðkirkjuna umfram önnur trúfélög og þess vegna lít ég á þetta sem eðlilegan hlut.