151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[17:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spurði: Hvers vegna þurfum við að setja sérstök lög um þjóðkirkjuna? Því er auðsvarað, það er vegna þess að við erum með ákvæði í stjórnarskrá sem skyldar okkur til ákveðins stuðnings við þjóðkirkjuna. En við getum deilt um hvort slíkt ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá. Auk þess þurfum við lög um þjóðkirkjuna vegna þess að við höfum ákveðið að setja á hana ákveðnar skyldur umfram aðra. Það er svarið og það er einfalt. En eins og ég hef áður sagt er ekkert sjálfgefið að það verði hér þjóðkirkja um aldur og ævi. Ef þjóðfélagið breytist mikið, sem það stefnir í, þá verður þetta stjórnarskrárákvæði algjörlega úrelt á einhverjum tímapunkti. Þá breytum við því bara. (SMc: Heyr, heyr.) Ef svo fer, meina ég. Hins vegar myndi ég vilja styrkja trúfélög til að sinna ákveðinni þjónustu. (SMc: Sammála.) Maður áttaði sig bara ekki á því fyrr en maður eltist hvað þetta er mikilvægt starf, hvað þessar kirkjur og söfnuðir, og auðvitað aðallega þjóðkirkjan, sinna frábæru starfi. Hún hefur sjálfsagt gert enn þá meira af því á árum áður, eða í gamla daga eins og sagt er, þegar menn höfðu ekki aðgang að sálfræðingum og alls konar heilbrigðisþjónustu heldur sinnti þjóðkirkjan auðvitað andlegri heilsu þjóðarinnar og reyndi að laga hana. Ég held að við ættum að gera meira af því í staðinn fyrir að vera með alla þessa sérfræðinga úti um allt því að guð hefur nú reddað mörgum manninum.