151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

loftferðir.

586. mál
[17:29]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Þó svo að ég hafi ekki náð að lesa skjalið alveg hundrað prósent spjaldanna á milli, en ég náði að skima þetta áðan, virðist frumvarpið almennt vera ágætt. Það skýrir hluti betur og er heilt yfir betur samsett en núgildandi lög, sýnist mér. En ákvæðum fjölgar um tæplega 100 frá gildandi lögum og maður kemst ekki hjá því að upplifa það þannig að mikill þungi EASA-regluverksins sem hér kemur inn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir stórar farþegaflutningavélar eða stórar vöruflutningavélar í atvinnulífinu sem er alveg eðlilegt að töluvert mikið og þungt regluverk sé um. Ég velti því samt fyrir mér hvort það séu einhverjir staðir þar sem hægt hefði verið að hafa regluverkið ögn sveigjanlegra gagnvart minni flugvélum og loftförum í einkaflugi eða álíka. Það hefur t.d. nýlega komið upp að það eru töluvert meiri og þyngri kvaðir um viðhald á svifflugum og öðrum þess háttar farartækjum en hefur verið í gegnum tíðina. Það þarf í raun full Part-66 réttindi til að mega stunda slíkt. Þegar kerfið er hannað utan um stærsta og þyngsta tilfellið þá vantar svolítið að hugsa til smærri aðilanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé eitthvert svigrúm til þess.