151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

loftferðir.

586. mál
[17:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar og ég get verið sammála mörgu. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir, og þetta er ekki sérstakt vandamál hér á Íslandi heldur úti um alla Evrópu, er að þynging regluverks, sérstaklega gagnvart smærri aðilum, hefur keyrt kostnað allverulega upp, hefur búið til íþyngjandi umhverfi sem er hreinlega að ganga af mörgum smærri flugíþróttagreinum dauðum eins og staðan er í dag. Endurnýjun flugmannaréttinda er erfiðari og þyngri og dýrari í Evrópu en t.d. í Ameríku og það hefur sýnt sig í því að þeim fer fækkandi sem stunda flugíþróttir í Evrópu samanborið við Ameríku o.fl. Það eru allir sammála því að við verðum að viðhalda eins góðum og öflugum og öruggum stöðlum fyrir flug og hægt er. En þegar við erum að útfæra þessar Evrópureglur þá er nánast alltaf einhvers konar svigrúm til túlkunar og svigrúm til að laga hlutina að aðstæðum í aðildarríkinu sem útfærir þær hverju sinni. Ég velti því fyrir mér hvort við séum einhvers staðar að útfæra þyngstu og flóknustu reglurnar í staðinn fyrir að nýta okkur svigrúm sem er til staðar og væri gaman að heyra af því.

Mig langar líka rétt í lokin að spyrja um 91. gr. frumvarpsins þar sem verið er að gera það leyfisskylt að leigja út einkaflugvélar. Ég velti fyrir mér: Til hvers er sú grein? Nú þarf ekki sérstaka heimild frá Samgöngustofu eða öðrum til að leigja út bílinn sinn eða íbúðina sína, eða hvað? Hvers vegna má það ekki í þessu tilfelli?