151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

loftferðir.

586. mál
[17:37]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þetta sé með stærri frumvörpum sem maður hefur séð undanfarið. Að vísu kom nýlega inn frumvarp um greiðslumiðlunarþjónustu sem var álíka þungt plagg þannig að það er nóg að lesa þessa dagana. Ég hafði þó sem betur fer tíma til að skoða þetta aðeins og leist bara nokkuð vel á svona heilt yfir. Auðvitað er, eins og stundum er sagt, djöfullinn falinn í smáatriðunum þannig að það eiga örugglega eftir að koma upp einhver smáatriði þegar nánar verður farið í þetta.

Mig langar að nefna nokkur atriði, bæði góð og slæm, sem ég hef rekist á og vona að þau verði tekin til íhugunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Til að byrja með, eins og við vorum að ræða hér rétt áðan í andsvörum, þá er fyrst og fremst verið að útfæra þessa stóru EASA-reglugerð sem er mjög heildstæð og nær yfir mjög stórt svið loftferða og er smíðuð utan um þau tugþúsund fluga sem daglega eiga sér stað á heimsvísu eða áttu sér alla vega stað áður en Covid byrjaði og mun vonandi verða svo aftur. Það eru ákveðin atriði þarna sem, eins og við ræddum, væri gott að létta á gagnvart smærri og léttari loftförum, gagnvart loftförum í einkaflugi en ekki atvinnuflugi og þar fram eftir götunum. Ég hlakka bara til og treysti því að það verði góðar og eðlilegar tilslakanir, ekki endilega umfram það sem góðu hófi gegnir en alla vega í þessum 30 eða svo undirgerðum sem hæstv. ráðherra talaði um hér áðan.

Mig langaði að nefna 14., 16. og 17. gr. frumvarpsins sem fela í sér ákveðna tilfærslu á ábyrgð til annarra aðila gagnvart eftirliti og álíka og þetta er í raun mjög gott. Þetta passar inn í það sem hefð hefur verið fyrir, t.d. varðandi skráningu fisa og álíka. En ég velti því fyrir mér hvort orðalagið í þessum greinum geti verið svo að hægt verði að færa mikið af eftirlitinu frá Samgöngustofu til einkaaðila umfram það sem góðu hófi gegnir. Hér er kannski ástæða til að velta orðalaginu fyrir sér og skerpa mögulega á því.

Í 36. gr. frumvarpsins er talað um að nota eigi SI-mælieiningakerfið í flugi. Það er mjög gott. En það er áhugavert að í flugi í dag er enn stuðst við fet, hnúta og sjómílur að verulegu leyti úti um allan heim. Það eru aðallega þrjú lönd sem gera það ekki, eftir því sem ég hef best fengið skilning á, og það eru Rússland, Kína og Norður-Kórea sem notast við kílómetra á klukkustund og metra í hæð eins og eðlilegt væri. Það er svolítið merkilegt að það skuli vera þessi þrjú lönd sem fóru þá leið. En hér held ég að óhjákvæmilegt sé að þessar einingar og reyndar fleiri til þurfi að komast fyrir í regluverkinu þó svo að það sé mjög gott og bara fullkomið að miða við SI sem grunn.

Ég minntist á 91. gr. í andsvörum hér áðan og ég verð að viðurkenna að hún stuðaði mig svolítið. Þar er í raun um að ræða takmörkun á því hverjir geta leigt út eignir sínar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Leyfi Samgöngustofu þarf til útleigu loftfara í ábataskyni án flugliða til almannaflugs á íslensku yfirráðasvæði. Undanþegin leyfisskyldu eru kaupleigu- og fjármögnunarfyrirtæki, flugrekendur með höfuðstöðvar innan EASA-ríkjanna með útgefið flugrekstrarleyfi til flutningaflugs og/eða sérstakrar starfrækslu. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir leyfisveitingu …“

Yfirleitt þegar einhver á eign getur viðkomandi leigt hana frá sér án sérstaks leyfis og mér finnst þetta eiginlega aðeins of langt gengið. Nú er það þannig að ekki má nota flugvél nema hún hafi flughæfnisskírteini, tryggingar séu í lagi o.fl. og ekki má heldur nota hana nema sá sem notar hana hafi tilskilin réttindi til þess. Að því gefnu að þetta tvennt sé fyrir hendi, sem hvorugt fellur undir útleigu, og gengið sé frá sköttum og álíka með eðlilegum hætti skil ég ekki hvers vegna það ætti að þurfa sérstakt leyfi Samgöngustofu til að þetta megi. Þarna er kannski eitthvað sem mætti bara sleppa.

Í frumvarpinu er eðlilega mikið talað um vinnuvernd flugliða og álíka. En það hefur stundum verið rætt hvort vinnuvernd flugvirkja, og sér í lagi hvíldartími flugvirkja, sé nægilega vel virt. Nú er þetta eitthvað sem ég þekki ekki persónulega en hef bara heyrt um og velti fyrir mér hvort þarna sé ekki tilefni til að skoða hvort taka þurfi eitthvað fram um það og passa upp á það að flugvirkjar séu þá ekki, t.d. ef þeir hafa farið með í flug af einhverjum ástæðum, að lengja daginn með því að sinna viðhaldi inni í flugskýli eftir það. Mistök gerast þegar fólk er þreytt og eðlilegt að við höldum vel á spöðunum hvað það varðar.

En nú er ég að stikla á stóru um ansi mörg atriði. Það hefur verið nefnt nokkrum sinnum varðandi geðvirk efni, að þarna séu takmarkanir á því að fólk megi stýra loftförum eða starfa í loftförum ef það er á geðvirkum efnum. Það er eðlilegt að setja einhverjar takmarkanir þarna en bent hefur verið á að með þessu banni, sem kemur í kjölfar alvarlegs atburðar í Evrópu fyrir nokkrum árum, geti orðið til sú menning að þeir sem eru að kljást við þunglyndi eða kvíða eða annars konar geðræn vandamál veigri sér við að leita hjálpar af þeim sökum að þeir óttist að verða settir á einhver geðvirk efni og missa þar af leiðandi atvinnu sína. Það þarf að fara mjög varlega í þetta og ég biðla til umhverfis- og samgöngunefndar að athuga sérstaklega hvort ekki sé réttast að skapa einhvers konar umgjörð þar sem fluglæknar geta metið það hversu alvarlegt hvert tilvik er og látið þetta verða eins og hverja aðra lyfjagjöf eða annað sem hefur áhrif á flugréttindi og heilbrigðisvottun flugmanna. Það er flókið að finna rétta lendingu í þessum málum og við þurfum að passa okkur mjög vel. En ég held að það væri verra ef við myndum óvart búa til þá menningu að fólk væri að fela veikindi sín.

Ég ætla rétt í lokin að nefna 264. gr., sem fjallar um virðisaukaskattsafslátt. Þetta er alveg stórkostlega gott og jákvætt. En þarna er sérstaklega verið að fjalla um rafflugvélar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 1. júlí 2021 til og með 31. desember 2026 skal endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn sem aðalorkugjafa.“

Síðan er nánari útlistun á þessu. Þó að það sé mjög jákvætt að verið sé að drífa í rafvæðingu flugflotans velti ég því fyrir mér hvort ekki geti verið gott að passa upp á að t.d. vetni og aðrir hreinir orkugjafar geti fallið þarna inn í, sem eru mögulega ódýrari og einfaldari í praxís en það flókna viðfangsefni að koma fyrir rafhlöðum sem eiga það til að vera mjög þungar, og þyngd er aðalóvinur þeirra sem eru að smíða flugvélar. Á sama tíma velti ég fyrir mér hvort þetta ákvæði gildi líka í þeim tilfellum þar sem enginn aðalorkugjafi er til staðar. Það væri þá í svifflugum. Mér þætti eðlilegt að svo væri, enda eru rafkerfi í slíkum vélum. En ef maður skoðar flugsöguna aðeins þá var á tímabili verið að horfa mjög mikið til þess að nota jafnvel svifflugur í fraktflugi, stórar svifflugur og það sem er kallað Zeppelin — ég veit ekki hvaða íslenska nafn er yfir það, kannski loftskip, ég held að það sé rétt nafn. Þessir möguleikar hafa komist í skoðun aftur á undanförnum árum og er alveg ástæða til að það sé þá einhvers konar stuðningur við slíka innleiðingu ef hún reynist gagnleg. Ég held að þetta ákvæði sé almennt séð af hinu góða en það mætti athuga hvort ekki mætti útvíkka þetta fyrir fleiri tegundir orkugjafa.

Tíminn er að klárast og þetta er auðvitað 270 blaðsíðna frumvarp með greinargerð og ákvæðin eru gríðarlega mörg, meira að segja svo mörg að öll fylgiskjölin eru ekki einu sinni í útprentuðu frumvarpi heldur eru bara tenglar í þau. Þetta er stórt og þetta er flókið. Ég óska umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis við að klára málið og vona að það komist til framkvæmda. En gæta þarf vel að öllum þeim flækjum og lykkjum sem kunna að leynast í þessu. Þetta þarf að virka.