151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[18:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að koma fram með þetta góða mál. Af því að við erum, held ég, sammála um hvað það er sem orsakar raunverulega þennan vanda langaði mig til að spyrja hv. þingmann hvort og hversu langt aftur hún hafi farið í rýni á því hvort drengirnir okkar hafi í gegnum tíðina, kannski í áraraðir og miklu lengur en bara síðustu tíu árin, staðið hallari fæti. Eða hvernig er þetta? Við sjáum að sú þróun fer sífellt vaxandi. Hefur hv. þingmaður ekki líka velt því fyrir sér hvaða skilaboð við séum hugsanlega að senda þessum ungu piltum? Hvernig er fjölskyldugerðin okkar? Getur það haft eitthvað að segja? Og hvernig skólakerfið sjálft virkar í rauninni, þegar ekki tekst að kenna barni að lesa á tíu árum í grunnskóla? Við sjáum yfir þriðjung þessara drengja útskrifast illa læsa og með lélegan lesskilning.

Mig langar til að velta því upp með hv. þingmanni, mér finnst þetta málefni bara svo ofboðslega mikilvægt og það hlýtur að vera okkur öllum hjartkært: Í hversu mörg horn þurfum við að líta og hvað verðum við að skoða, umfram það sem hv. þingmaður nefnir réttilega að hugsanlega séum við að senda neikvæð skilaboð: Þú ert bara ekki nógu klár og frábær og gengur ekki vel í skólanum? Kannski höfum við jafnvel komið til þeirra svo neikvæðri ímynd að það sé ekki til neins að vera í skóla. En það er jú skólaskylda og þeir hafa tækifæri í tíu ár til að læra að lesa þar. Það er annar punktur sem mig langar til að koma að, af því að ég er að hrúga þessu á hv. þingmann, þ.e. hvernig menntakerfið er byggt upp. Af hverju látum við börnin okkar læra svona mörg fög áður en þau eru orðin læs (Forseti hringir.) og jafnvel áður en þau eru farin að tala tungumálið almennilega?