151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra. Með mér á frumvarpinu er Guðmundur Ingi Kristinsson, Olga Margrét Cilia og Sara Elísa Þórðardóttir. Báðar eru þær ungu konur í Pírötum.

1. gr. orðist svo:

„Á eftir 2. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.“

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lög um velferð dýra hafa það að markmiði að vernda dýr gegn ómannúðlegri meðferð. Bannað er að ofbjóða kröftum dýrs eða þoli eða misbjóða dýrum á annan hátt.

Á Íslandi er þó virkur iðnaður sem felst í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið PMSG sem selt er til líftæknifyrirtækja svo framleiða megi frjósemislyf fyrir búfénað. Og hvað skyldi nú þetta frjósemislyf gera? Jú, það sendir þau skilaboð til viðkomandi skepnu að hún sé sannarlega til í að ganga með fleiri afkvæmi. Og þetta hormón eykur líka, við skulum bara segja eins og er, kjötframleiðslu svo við sem öllu ráðum, mannskepnan, getum étið meira kjöt. Til þess er það réttlætt, að vera með fylfullar merar og sjúga úr þeim blóðið og selja það í gróðaskyni. Þetta hormón finnst aðeins í blóði fylfullra mera.

Líftæknifyrirtæki borga hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Árið 2019 voru 5.036 merar notaðar í þessum tilgangi. Á nokkrum stöðum er þetta orðið að stórbúskap, með allt að 200 merar í blóðframleiðslu. Miklir fjárhagslegir hvatar eru til staðar til að hámarka afköst. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra og þá er þeim slátrað. Folöldin fara að jafnaði beint í sláturhús.

Erlendis hefur þessi iðnaður verið stundaður með mjög grimmilegum hætti, mun grimmilegri en hér, a.m.k. eins og ég skil það. Í Úrúgvæ og Argentínu eru dæmi um að merar sæti ofbeldi við blóðtöku og framleiðendur framkvæmi fóstureyðingu svo hægt sé að fylja þær á ný því að þannig má auka framleiðsluna á PMSG-hormóninu sem fyrirfinnst aðeins á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Maður hefur svo sem heyrt slíku fleygt að framkallað sé fósturlát vegna þess að það er ekkert gagn að svona meri nema á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Eftir það er ekkert gagn að henni. Hún framleiðir ekki hormónið eftir þriðjunginn á meðgöngunni.

Í viðmiðum fyrir dýratilraunir hjá Virginia Tech-háskóla í Bandaríkjunum er lagt til að ekki sé tekið meira en 10% af blóðmagni á fjögurra vikna fresti og að ekki sé tekið meira en 7,5% af blóðmagni við blóðtöku sem framkvæmd er á vikufresti. Hér á landi er gengið talsvert lengra. Á meðan hormónið finnst í blóði meranna er framkvæmd blóðtaka á viku fresti, 5 lítrar í hvert einasta skipti, sjö til átta sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn er minni en erlend hestakyn, eins og við vitum, og því er blóðmagn í íslenskum merum aðeins 35–37 lítrar. Hér tökum við 14% af blóðmagni þeirra á viku hverri í tvo mánuði.

Ekki var fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra, þótt einkennilegt sé, og ekki er fjallað um hana sérstaklega í reglugerð um velferð hrossa, né í reglugerð um velferð dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Ekki er í þessum reglugerðum fjallað um hversu langt megi ganga við reglulega blóðtöku úr fylfullum merum í því skyni að framleiða umrætt hormón umfram almenn ákvæði sem þar koma fram. Það er því ekkert í lögum eða reglugerðum sem kveður á um hve mikið af blóði, blóðmagni, má taka úr fylfullum merum hverju sinni, eða hve oft, eða hvaða aðbúnaður þurfi að vera til staðar. Það er með öllu ótækt í ljósi þess hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi.

Þá eru dæmi um að merar drepist við blóðtöku. Það eru ekki til nýlegar, opinberar tölur yfir það, svo sannarlega ekki, engar tölur yngri en ríflega 20 ára gamlar, frá 1998. Opinberar tölur frá yfirdýralækni á þeim tíma eru að ein til tvær merar drepist á sumri hverju vegna þessarar blóðtöku. En umfangið á þessum búrekstri hefur margfaldast svo gríðarlega síðan 1998 að það væri meira en athyglinnar virði ef hægt væri að draga fram sannleikann um það hvernig þeim reiðir af eftir þessar hanteringar. Mögulega hafa fleiri merar drepist af afleiðingum blóðtöku, en þegar merar drepast í stóðum eftir blóðtöku er erfitt að ganga úr skugga um hvort það megi rekja til blóðtökunnar eða annarra þátta. Þess vegna er mjög mikilvægt að við náum fram upplýsingum um það, réttum og sönnum. Þótt merar drepist ekki við blóðtöku getur iðnaðurinn haft slæm áhrif á líf og líðan þeirra. Samkvæmt Matvælastofnun hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir á þremur bæjum vegna blóðmerahalds á síðustu þremur árum.

Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni. Því er lagt til að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í því skyni að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.

Eins og ég sagði þegar ég las upp úr greinargerðinni hafa komið alvarlegar athugasemdir frá Matvælastofnun til þriggja búa sem stunda þennan búrekstur. Ég hef ekki enn fengið að vita hvað var fólgið í þeim alvarlegu athugasemdum eða hvort Matvælastofnun hafi gripið inn í að einhverju öðru leyti, girt fyrir í rauninni þannig að þær alvarlegu athugasemdir sem þá voru gerðar eigi ekki rétt á sér lengur a.m.k. hvað það varðar.

Flokkur fólksins er flokkur dýraverndar. Við erum flokkurinn sem talar fyrir menn sem og málleysingja. Það væri afskaplega frábært, svo ekki sé meira sagt, ef við þingmenn á Alþingi Íslendinga og hæstv. ráðherrar kæmum til móts við þá bændur sem standa í þessum búrekstri með því að aðstoða þá með öðrum hætti til að þeir verði ekki af þeim tekjum sem blóðmerahald hefur gefið af sér til þeirra hingað til. Flokkur fólksins hefur komið með ýmis ráð. Við höfum viljað aðstoða á flesta lund, ef ekki alla, en sumt er það sem gengur gjörsamlega fram af mér, algjörlega. Það hringdi í mig blóðmerabóndi, þeir eru ekki glaðir með okkur hérna í Flokki fólksins eðli málsins samkvæmt og finnist illilega að sér vegið, sem mér þykir mjög leitt. Ég hefði gjarnan viljað koma til móts við þá á annan hátt því að ég efast ekki um að margir blóðmerabændur myndu gjarnan vilja gera eitthvað annað, sérstaklega ef það gæfi þeim sömu tekjur. Það á að vera skilyrði að það séu dýralæknar sem vinna þetta verk. Ég veit miklu betur. Það er ekki einu sinni til það margir dýralæknar í landinu að þeir geti í hverri viku tekið blóð úr yfir 5.000 merum. Það segir sig alfarið sjálft, fyrir utan það að ég þekki til einstaklinga sem hafa stundað þá iðn að taka blóð úr merum þó að þeir hafi enga menntun eða læknisfræðilega þekkingu til þess. Við hljótum að geta gert betur. Það er orðin gríðarleg hugarfarsbreyting í samfélögunum yfirleitt gagnvart velferð dýra. Við erum orðin miklu manneskjulegri hvað það varðar að hugsa um dýrin. Þó að þau tali ekki íslensku og séu ekki hugvitslega séð talin vera okkur jafn hæf þá eru þetta samt sem áður skepnur sem okkur í Flokki fólksins þykir mjög vænt um.

Sagan sem ég ætlaði að segja ykkur af blóðmerabóndanum sem hringdi í mig var sú að hann segir að ég sé að ýkja, það sé ekkert verið að slátra folöldunum eftir fæðingu þeirra og svo segir hann líka að það auki mjólkurframleiðslu hryssunnar ef það er tekið úr henni blóð á fyrstu þremur mánuðunum. Það auki bara mjólkurframleiðsluna. Eðli málsins samkvæmt spyr ég: Hvað ertu að meina? Ertu að meina það að á meðan hryssan er fylfull og verið að sjúga úr henni blóð, gangi undir henni folald og sjúgi hana líka? Svarið var já. Hrossabóndanum fannst ekkert að því. Ég veit ekki hvað ykkur finnst en mér finnst þetta vægast sagt hræðilegt.