151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla nú að byrja á því að biðjast afsökunar á því að ég hafi þrykkt honum í Miðflokkinn. Einhvern veginn fannst mér hann vera eitthvað svo Miðflokkslegur hérna og biðst innilega afsökunar á því. Hvað sem því líður þá er ég ekkert sár eða móðgast að einu eða neinu leyti yfir því hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á þessu frumvarpi því að hann má sannarlega láta sér finnast það sem honum sýnist, mér algerlega að meinalausu. En mér þykir hins vegar miður þegar komið er með gífuryrði og ráðist að manni, eins og ég upplifi það a.m.k., það finnst mér ekki rétt. Þetta er okkar sannfæring og okkar trú. Hv. þingmaður nefnir að þetta reikningsdæmi sé bara algerlega í ruglinu, hvernig reikningsdæmið er, það sé ekki einu sinni hægt að taka blóð svona oft úr merunum á þeim tíma sem þær eru fylfullar, eins og ég hef gefið í skyn. Það er rangt. Að meðaltali er það ekki fimm sinnum sem tekið er blóð úr þessum merum. Það er reynt að taka úr þeim blóð eins oft og nokkur kostur er, eins oft og menn geta vegna þess, sem hv. þingmaður bendir akkúrat á og ég kom inn á í framsögu minni með frumvarpinu, að það er einungis á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar sem merin framleiðir þetta hormón. Eðli málsins samkvæmt er reynt að nýta það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaðan hann fær upplýsingar um að það séu aðallega dýralæknar sem taka blóð úr yfir 5.000 merum í hverri viku. Það er skortur á dýralæknum í þetta starf og ég veit betur en hv. þingmaður, eins og ég benti á í framsögu með frumvarpi mínu. Ég veit um menn sem eru ekki einu sinni bændur sem hlaupa á eftir hryssum til þess að sjúga úr þeim blóð.