151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um velferð dýra (blóðmerahald). Ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á hv. þm. Þórarin Inga Pétursson frá Framsóknarflokki er ég enn þá meira á móti þessari blóðtöku. Talað er um að dýralæknir taki blóð undir opinberu eftirliti. Mér líður ekkert betur með það vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að það er svolítill misbrestur á þeirri framkvæmd. Ég hef heyrt um það. Annað sem ég átta mig eiginlega ekki á og kom fram núna og átti að vera til góða, held ég, er að merarnar séu staðdeyfðar. Ég sé ekkert gott við það. Ég sé ekkert gott við þetta. Þær eru þá auðvitað staðdeyfðar vegna þess að þær finna til. Mannskepnan tekur ákvörðun, við förum í Blóðbankann, eins og ég gerði áður, og gefum blóð. Ég tók þá ákvörðun en það hvarflaði ekki að mér eina mínútu að ég færi að draga einhvern annan inn í Blóðbankann og segja: Þú átt að gefa blóð. Hvað þá að mér hefði dottið í hug að verið væri að draga skynlausar skepnur, hestana okkar, hryssur með folöld, í blóðtöku. Þá hefði maður hugsað: Í hvaða tilgangi? Í hvaða frábæra tilgangi er verið að gera þetta? Hver er tilgangurinn? Er það að bæta eitthvað? Nei, tilgangurinn er að búa til hormón svo að sé hægt að níðast enn þá meira á annarri skepnu, svo að annað dýr geti aukið framleiðslu, grísaframleiðslu, svo að gylta geti verið fyrri til að ganga með og fæða grísinn en hún getur líkamlega. Þetta er það sem ég er búinn að lesa mér til um. Það er þessi tilgangur.

Ég segi bara: Guð hjálpi okkur. Hversu langt erum við tilbúin að ganga í svona málum? Hv. þingmaður segir að hann sé stoltur af að vera bóndi. Ég kem af bændum í báða ættliði. Það eru jú um 100 bændur sem starfa við þetta. Ég segi fyrir mig að ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir myndu vilja starfa við eitthvað annað ef þeir fengju svipaðan pening fyrir það. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég get ekki trúað því að þetta sé eitthvað sem þeir vilja starfa við og finnst sjálfsagt að starfa við; að taka blóð úr hryssu sem er með folaldi til að búa til hormón til að framleiða meira af kjöti. Og á sama tíma og það er of mikið af kjöti. Þannig að tilgangurinn er sá. Og að þetta sé bara gert á þriðjungi meðgöngu, að eitthvað sé eðlilegt við það, þá verð ég að segja að ég bara næ því ekki. Ég fór að kynna mér þetta og ég rakst á grein. Höfundurinn heitir Árni Stefán Árnason og er lögfræðingur, sérhæfður í lögum um dýravernd. Hann skrifaði grein í Kjarnann 14. janúar 2020. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í grein hans. Þar segir, undir fyrirsögninni Alheimsvirðing íslenskrar hrossaræktar á undir högg að sækja:

„Íslenska hrossið nýtur mikillar virðingar á heimsvísu. Þegar best lætur á Íslandi er aðbúnaður og framkoma mannsins við hross til mikillar fyrirmyndar, langt umfram það, sem lög krefjast og gott siðferði gerir tilkall til. Þá ímynd verður að vernda og hrossinu ber að sýna þakklæti og virðingu. En svo er því miður ekki alls staðar á Íslandi.“

Og áfram segir, undir fyrirsögninni Blóðmerin er tilraunadýr til að auka kjötframleiðslu:

„Blóðmerahald er iðnaður, skilgreindur, sem tilraunadýrastarfsemi af Matvælastofnun og hefur þann eina tilgang, að framleiða hormónið PMSG, hvata til að auka frjósemi í svínaeldi til manneldis.“

Orðrétt segir, undir fyrirsögninni Þegar dýraníð verður grundvöllur iðnaðar:

„Skrif þessi beina athyglinni að dýraníði þessa iðnaðar, sem um ríkir skipulögð umfangsmikil þöggun hagsmunaaðila, landbúnaðarráðherra og MAST. Af hverju það er svo skýrist betur síðar í greininni. Upplýsingabrunnur greinarinnar er áreiðanlegur. Meðal annars er byggt á nýlegum rannsóknum erlendra dýraverndarsamtaka á Íslandi sl. haust og ýmsum öðrum gögnum og áralangri almennri vitneskju um eðli blóðmeraiðnaðarins, sem svo hljótt hefur farið um hérlendis. Á meðal gagna má nefna fjölda fréttaskýringaþátta frá virtum þýskum sjónvarpsstöðvum.“

Síðar í greininni segir orðrétt, undir fyrirsögninni Blóðmerar þolendur hins harða heims útigangs:

„Blóðmerar eru útigangshryssur. Úti allt árið við afar misjafnar aðstæður. Við þessar aðstæður er skylda skv. lögum að veita þeim gott skjól, gegn veðrum, fóður og vatn. Það heyrði til undantekninga að samstarfsaðilar mínir sæju kröfuna um skjól uppfyllta en þeir höfðu viðkomu á um 40 stöðum blóðmerastóða hvar haldnar voru hundruð mera ásamt folöldum. Það kom og á daginn í nýlegu óveðri að hross gátu ekki veit sér skjól og drápust, hægum kvalafullum dauðdaga, þvert á ákvæði dýraverndarlaga. Margoft hefur verið gagnrýnt af ýmsum aðilum hvernig mörg útigangshross eru auk þess vanrækt að vetri til varðandi vatn og heygjöf.“

Undir fyrirsögninni Iðnaðarþrælarnir blóðmerar og folöld þeirra segir:

„Blóðmerar eru gerðar fylfullar með reglulegu millibili til þess að líkami þeirra geti hafið framleiðslu blóðs, sem inniheldur PMSG, „gullmola“ líftæknifyrirtækja, sem veitir þeim milljarðahagnað á ári hverju með fjöldaframleiðslu þess. Blóð er tekið úr merum í tuglítratali yfir sumarmánuðina. Þegar folald þeirra er orðið nokkurra mánaða gamalt eru ýmsar sviðsmyndir mögulegar skv. mínum heimildarmönnum. Það er skotið á staðnum og látið liggja þar til móðir þess gefst upp, klárar sorgarferil sinn. Það er jafnvel framkvæmd fóstureyðing svo hægt sé að sæða hryssuna aftur. Þau folöld sem fæðast eru grafin úti í haga eða það er tekið af móður þeirra og sent í sláturhús. Það skýrir gnægt framboð á ódýru hökkuðu kjöti á haustin.“

Ég segi fyrir mitt leyti að þessi upptalning er skelfileg, þó ekki nema eitthvað af þessu væri satt, maður veit ekki hversu mikið, ég get ekki fullvissað mig um það. Þarna talar lögfræðingur sem segist sérhæfa sig í lögum um dýravernd. Þetta er alveg skelfilegt. Ég segi bara: Þó ekki nema brot af þessu væri rétt ættum við að hætta á stundinni.

Ég ætla að lokum að vitna í lokaorð greinarinnar, með leyfi forseta:

„Er Ísland móttökustaður búfjáreldis sem inniber illa meðferð dýra?

Já, það má rökstyðja. Tvær búgreinar á Íslandi þykja ekki lengur siðferðislega boðlegar í Evrópu. Loðskinnaframleiðsla af minkum og blóðmeraiðnaðurinn. Loðskinnaiðnaðurinn hefur verið mikið gagnrýndur hérlendis enda hafa erlendir aðilar sótt hingað þar sem íslensk yfirvöld heimila hann. Það sama á við um blóðmeraiðnaðinn. Hann á undir högg að sækja erlendis og því sækja hagsmunaaðilar hingað.

Og þetta virðist Alþingi, landbúnaðarráðherra og Matvælastofnun þykja hið besta mál, að búfjárhaldi, sem er illa séð í siðuðum löndum búfjáreldis, sé greidd gatan á Íslandi.“

Í frumvarpinu kemur fram, og það hefur ekki verið hrakið hér á nokkurn hátt, að blóð sé tekið sjö til átta sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn er minni en erlend hestakyn og því er blóðmagn í íslenskum merum aðeins 35–37 lítrar. Hér er því verið að taka um 14% af blóðmagni þeirra á viku hverri í tvo mánuði.

Við áttum að sætta okkur við þetta af því að það væri svo litlu meira blóð en það sem tekið væri úr mannfólki, eða 12% eftir því sem kom hér fram. Það er stór munur á vegna þess að blóðmagnið sem er tekið úr mönnum er gert með þeirra vilja, vísvitandi og viljandi af viðkomandi mannveru. En þarna erum við ekki bara að taka blóð úr hesti heldur erum við að taka og blóð úr meri sem er með folaldi. Ég bara get ekki skilið hvernig hægt er að réttlæta það. Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja í fyrsta lagi að hægt sé að réttlæta þetta og í öðru lagi að það sé líka, eins og hefur komið fram, á málaskrá Miðflokksins eitthvað sem ber að efla. Það er eiginlega bara stórfurðulegt.

Okkur ber eiginlega skylda til að leggja þetta af. Við eigum að vera nógu siðuð og við eigum að vera orðin nógu þróuð til að bera meiri virðingu fyrir dýrunum okkar en þetta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég ber virðingu fyrir bændum og hef ekkert nema gott að segja af þeim bændum sem ég þekki til. En ég hef ekki þekkt til eins einasta bónda sem gerir þetta og ég segi: Sem betur fer hef ég ekki orðið vitni að því. Ég var mest alinn upp í sveit norður í Húnavatnssýslu þar sem var mikið um hesta. Þar heyrði ég ekki nokkurn mann nokkurn tímann nefna slíkt á nafn. Þarna var ég í fjölda ára. Miðað við það hvernig þeir fóru með og hugsaðu um hesta sína er ég alveg sannfærður um að það hefði ekki hvarflað að þeim eina sekúndu, ekki eina sekúndu, að gera þetta.

Þetta er því, eins og kemur hér fram, eitthvað falið, eitthvað sem ekki er vilji til þess að sé í opinberri umræðu. Það sem mér finnst kannski langalvarlegast í þessu er þegar vitnað er í fyrirtæki sem hefur gífurlegan hagnað af þessari framleiðslu, gífurlegan hagnað. Hagnaðurinn hlýtur að liggja í því að taka blóðið og búa til þetta efni til að selja t.d. svínabændum til að framleiða meiri kjöt. Ég segi: Eigum við að sammælast um að þetta sé gott frumvarp og það sé bara kominn tími á að við sýnum hestunum þá virðingu, og sérstaklega þá merunum sem eru með folaldi, að við séum ekki að dæla fleiri lítrum af blóði úr þeim, sjö til átta sinnum á sumri, á meðan þær eru með folaldi?