151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga o.fl.

554. mál
[20:11]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda, (fjárhagsupplýsingar um einstaklinga). Flutningsmaður með mér á frumvarpinu er ágætur hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Fyrir þessu frumvarpi stendur því gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins.

Í I. kafla kemur fram breyting á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Í 1. gr. stendur að 15. gr. laganna orðist svo, ásamt fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Bann við miðlun upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, þ.m.t. vanskilaskráning og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, er bönnuð.“

II. kafli er breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Hér kemur líka inn breyting eins og gengur þegar komið er með frumvörp sem fjalla í raun um fleiri lagabálka. Þá verðum við að reyna að leitast við, og gerum það, að breyta alls staðar í samræmi við markmiðin sem að er stefnt. Þá þurfum við að breyta því réttilega í takt í öðrum lagabálkum einnig. Í 2. gr. breytinganna á lögum um neytendalán kemur fram að við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal líta til upplýsinga um vanskil neytenda vegna tiltekinnar kröfu ef búið er að afskrá kröfuna af vanskilaskrá.

Hér verð ég vísa til þess hvers lags snara virðist vera um háls margra þeirra sem hafa lent í því óláni að lenda inni á vanskilaskrá. Það er með hreinum ólíkindum að viðkomandi sé þar hreinlega nánast í fjögur ár, hvort sem honum líkar betur eða verr, og jafnvel þó að hann hafi verið búinn að greiða allt upp fyrir þremur árum. Á meðan býr hann við það böl að vera í rauninni algerlega lamaður gagnvart því að fá lánshæfismat eða geta hreyft sig í nokkra einustu átt hvað lýtur að því að vera metinn hæfur til þess að taka lán eða gera nokkurn skapaðan hlut.

Einnig er í III. kafla í frumvarpinu breyting á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Þar segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Við 7. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal líta til upplýsinga um vanskil neytenda vegna tiltekinnar kröfu ef búið er að afskrá kröfuna af vanskilaskrá.“ — Nákvæmlega eins og áður kemur fram í breytingu á hinum lagabálkunum.

Í 4. gr. segir svo að lögin öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Aðgangur að lánsfjármagni er grunnforsenda þess að fólk geti komið sér úr klóm fátæktarinnar. Ef fólk nær að losna út af leigumarkaðnum og komast í eigin fasteign þá loks fær það ráðrúm til að ná upp eignarmyndun. Í stað þess að greiða leigu greiðir fólk afborganir af lánum, sem í mörgum tilfellum eru jafnvel lægri en leigugreiðslur fyrir sambærilegt húsnæði. Það eiga þó ekki allir jafn greiðan aðgang að lánsfjármagni.

Neytendur þurfa að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en lánastofnanir veita þeim lán. Greiðslumatið fer þannig fram að lagt er mat á reglulegar tekjur og fyrirhuguð útgjöld lántakanda og áætlað hver greiðslugeta hans er. Lánshæfismatið er m.a. byggt á viðskiptasögu aðila á milli eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Sífellt berast fréttir af fólki sem getur ekki fengið lán frá lánastofnunum vegna niðurstöðu lánshæfismats. Margir fá synjun á fyrirgreiðslu þrátt fyrir góða greiðslugetu og án þess að lán séu í vanskilum. Fólk fær gjarnan þá skýringu að vegna þess að þriðji aðili hafi gefið því of lága einkunn geti lánastofnunin ekki veitt því lán.“ — Því miður: „Computer says no, “ eins og þar stendur og þó að ég viti, virðulegur forseti, að þingmálið okkar er íslenska er það orðið tungunni svolítið tamt að sletta þessu fram þegar við vísum til kerfis eins og ég geri hér í þessu tilviki. — „Slík einkunnagjöf er svokallað persónusnið. Með því er átt við sjálfvirka vinnslu persónuupplýsinga sem felst í því að nota þær til að meta ákveðna þætti er varða hagi einstaklings, einkum að greina eða spá fyrir um þætti er varða greiðslustöðu hans. Slík persónusnið eiga ekki að leiða til sjálfvirkrar ákvarðanatöku, bara alls ekki. Því mega lánastofnanir ekki hafna lánveitingu án þess að taka tillit til annarra atriða. Engu að síður hafa slík persónusnið mikið vægi við mat á lánshæfi einstaklings.

Dæmi eru um að fólk fái lága einkunn í persónusniði vegna þess að það hafi á einhverju tímabili verið á vanskilaskrá. Slíkt er lagt til grundvallar þrátt fyrir ábendingar Neytendasamtakanna um fjölda tilvika þar sem vanskil hafi verið skráð á einstaklinga vegna smálána sem kunni að vera ólögmæt. Gjarnan er það svo að eina vernd neytenda gagnvart lánveitendum er að halda eftir greiðslu telji þeir lánin ólögmæt. Þeir eiga þá á hættu að það hafi áhrif á lánstraust þeirra til frambúðar. Það hefur jafnframt sýnt sig að eitt helsta vopnið í höndum smálánafyrirtækja er að hóta neytendum vanskilaskráningu greiði þeir ekki umdeildar kröfur. Slíkt er með öllu ótækt. Enn fremur getur það haft neikvæð áhrif á persónusnið ef viðkomandi hefur gengið í gegnum greiðsluaðlögun. Þá eru jafnvel dæmi um að það hafi áhrif á persónusnið hversu oft viðkomandi hefur verið flett upp í vanskilaskrá.“ — Þannig að ef maður er vinsæll og margir vilja fletta manni upp er maður kominn í neikvæðari stöðu en ef fáir hefðu gert það, jafnvel þó að í rauninni sé ekkert annað hægt að tiltaka þar sem ætti að koma neikvætt út. Þetta er náttúrlega stórmerkilegt, virðulegi forseti, og stórundarlegt og maður áttar sig eiginlega ekki á því hvernig þetta er mögulegt. En svona er það nú samt. — „Persónuvernd hefur þó úrskurðað að óheimilt sé að ljá því vægi við gerð persónusniðs.

Það er með öllu ótækt að neytendur geti ekki fengið lán vegna þess að þeir hafi á einhverju tímabili verið með lán í vanskilum.“ — Og eru það svo ekki lengur. — „Á því geta verið ýmsar skýringar. Hér má nefna að í efnahagshruninu haustið 2008 hækkuðu skuldir heimilanna verulega.“ — Það er víst alveg óhætt að segja að hér sé verulega vægt til orða tekið því að þær hreinlega stökkbreyttust. — „Það hafði þó ekki áhrif á greiðslugetu fólks í mörgum tilvikum. Eflaust lentu þá margir á vanskilaskrá án þess að reglulegar tekjur þeirra hefðu skerst. Í kjölfarið kom í ljós að stór hluti lánanna, svokölluð gengislán, voru ólögmæt. Þá tók Alþingi þá ákvörðun að leiðrétta skuldir heimilanna nokkrum árum síðar. Íslendingar ættu því að þekkja það þjóða best að vanskil eru ekki endilega einstaklingnum að kenna. Þau ættu því ekki að elta fólk til grafar löngu eftir afskráningu.

Vinnsla á fjárhagsupplýsingum einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra fellur undir lög um persónuvernd. Í 15. gr. þeirra er fjallað um heimild til slíkrar vinnslu en þar segir að hún sé starfsleyfisskyld. Lagt er til að slík vinnsla verði bönnuð. Þannig verður girt fyrir að þriðji aðili geti haft úrslitaáhrif á möguleika neytenda til að taka lán.

Aðeins eitt fyrirtæki hefur í dag leyfi til slíkrar vinnslu, Creditinfo Lánstraust hf. Verði frumvarp þetta að lögum mun fyrirtækið þurfa að láta af þeirri starfsemi sinni sem snýr að vinnslu fjárhagsupplýsinga um einstaklinga í því skyni að miðla upplýsingum til annarra. Fyrirtækið gæti því ekki lengur miðlað upplýsingum úr vanskilaskrá eða eigin lánshæfismati.

Eftir sem áður munu lánastofnanir þurfa að uppfylla kröfur laga um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Neytendur geta þá treyst því að lánveitandi sjálfur leggi mat á lánshæfi þeirra í stað þess að byggt sé á gögnum frá þriðja aðila.

Að lokum er lagt til að lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda verði breytt og tekin af tvímæli um það að við gerð lánshæfismats megi ekki líta til upplýsinga um vanskil ef búið er að afskrá þær úr vanskilaskrám.

Það er von flutningsmanna að í kjölfarið muni fækka þeim tilfellum þar sem neytendum er vísað á dyr vegna niðurstöðu lánshæfismats sem byggist á upplýsingum sem gefa ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu þeirra.“

Virðulegi forseti. Það er víst alveg áreiðanlegt að þetta er stórmerkilegt fyrirbrigði og eina fyrirtækið sem hefur leyfi til að miðla persónuupplýsingum til þriðja aðila í hagnaðarskyni. Ég skil samt ekki alveg hvers vegna lánastofnanir og hvers vegna við nýtum ekki tækifærið núna þegar ríkið er með tvo banka í fanginu, hvers vegna við komum ekki upp sambærilegum gagnagrunni eins og t.d. Creditinfo hefur. Það var svolítið kaldhæðnislegt að fara í lánshæfismat og fyrsti takkinn sem maður varð að ýta á, og það í gegnum Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, var takkinn Creditinfo. Lánshæfismatið er náttúrlega komið eftir eina, tvær eða þrjár sekúndur og fyrir það þarf maður að borga Creditinfo 7.000 kr. sem einstaklingur og 13.000 kr. sem par eða hjón, enda sýnir það sig að þetta er náttúrlega bara maskína. Hjólin þarna vinna næstum jafn hratt og flóð peninganna inn í lífeyrissjóðakerfið okkar.

Hvað um það, að mínu viti er þetta brot á persónuverndarlöggjöfinni eins og við höfum hugsað hana. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum veita þriðja aðila aðgang að persónuupplýsingum okkar til að búa til um okkur gagnagrunn og selja aðgang að okkur. Það er með hreinum ólíkindum. En það sem er eiginlega ömurlegast af þessu er náttúrlega að þrátt fyrir að einstaklingur hafi gert upp vanskil sín skuli honum vera haldið þarna áfram, að hann fái ekki að njóta vafans, að hann fái ekki að byrja á þeim stað þar sem hann stendur nákvæmlega núna, þ.e. með hreint borð. Af hverju þarf hann að bíða í fjögur ár? Ég var búin að heyra að í rauninni væri byggt á ákveðnu spálíkani hjá Creditinfo. Það heyrði ég frá starfsmanni þar, að þau væru að meta hversu líklegur viðkomandi einstaklingur væri til að lenda á vanskilaskrá aftur. Það er náttúrlega með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti. Maður hefur á tilfinningunni að þarna sé komin einhver völva eða einhver völvuspá um það hvort ég eða hv. þingmaður sem situr á móti mér, Guðmundur Ingi Kristinsson, eða hver sem er annar lendum hugsanlega á vanskilaskrá á næstu fjórum árum. Þetta er eiginlega bara stórmerkilegt.

Ég myndi hvetja til þess enn og aftur að bankastofnanir okkar og lífeyrissjóðirnir okkar og aðrir sem gefa sig út fyrir að lána fólki fé komi upp sínum eigin gagnagrunni um okkur þar sem ekki er verið að selja til þriðja aðila heldur sjái fagaðili, sem er lánveitandi í þessu tilviki, sjálfur um að afla upplýsinga um væntanlegan lántaka. Þetta er milliliður sem er algjörlega óþarfur. Hins vegar hefur þetta góða fyrirtæki, Creditinfo Lánstraust, ýmislegt annað og það er ýmislegt annað sem þau starfa við. Þau hafa t.d. komið upp alveg fyrirmyndardómasafni, þar sem eru hæstaréttardómar og allir dómar, alveg ótrúlegur fjársjóður. Þetta er framsækið og mjög gott fyrirtæki í margar áttir. Þau eru líka dálítið máttlaus gagnvart þeim upplýsingum sem lánastofnanir senda inn til þeirra. Þetta er ekki allt saman þeim að kenna, ef ég gæti komist svo að orði, heldur heykjast lánastofnanir hreinlega á því að þurrka borð fyrrverandi skuldara þannig að hann sé kominn með hreint borð.

Ég get að lokum sagt alveg stórmerkilega sögu. Við heyrðum, virðulegi forseti, í fréttum um daginn að eitthvert barn væri komið í bátinn hjá Arion banka og að einstaklingar sem jafnvel skulduðu ekki neitt og hefðu löngu verið búnir að greiða upp skuldir sínar væru að fá tugi bréfa inn um bréfalúguna, allt frá því í ágúst í fyrra. Á einu bretti hrúgaðist inn haugur af gluggapósti sem sýndi fram á skuld hjá viðkomandi sem skuldaði akkúrat ekki neitt. Þarna var kerfið eitthvað að klikka. Þá get ég bara sagt af sjálfri mér að ég var akkúrat að fara í lánshæfismat fyrir tveimur vikum eða svo og ekkert annað gerist en það að ég fæ bara beint í hausinn að ég skuldi yfir 55 millj. kr. í gjaldfallna ábyrgðarskuldbindingu. Þetta er athyglisvert. Þarna var á einu bretti, einfaldlega út af kerfisvillu sem síðar kom í ljós hjá Arion banka, hægt að klína á mig 55 millj. kr. skuld. Þegar betur var að gáð og ég spurði: Fyrirgefið en fyrir hvern gekk ég í þessa ábyrgðarskuldbindingu? Þá voru engin svör vegna þess að það fannst enginn sem ég hefði gengið í þessa ábyrgð fyrir. Síðan var ég beðin afsökunar, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, og þetta leiðrétt. En þetta er hvimleitt og það tók bara ansi marga klukkutíma að hoppa á milli lífeyrissjóðsins, Creditinfo og svo bankans sem ég hef átt í viðskiptum við. Það var svolítið sláandi að fá þetta beint í fangið og átta sig á því að úti í samfélaginu eru einstaklingar sem hljóta að lenda í nákvæmlega því sama og eru kannski ekki einu sinni með bolmagn til að hreinsa það af sér. Ég veit það ekki. Þetta var sjokkerandi, svo að ekki sé meira sagt en þetta er farið af mér núna. Kerfisvilla heitir það víst og ég segi: Þetta var óþægilegt.

Hvað frumvarpið sem við mælum fyrir varðar fyndist mér bara virkilega til fyrirmyndar að við kæmum því út af borðinu að fólk geti hangið í snöru í jafnvel fjögur ár án þess að skulda nokkrum eina einustu krónu heldur hafi það verið svo ólánsamt einhvern tíma að lenda á vanskilaskrá og að það skuli taka viðkomandi fjögur ár, að það sé í rauninni viðmiðunartíminn, að fá sitt frelsi til að halda áfram úti í samfélaginu. Mest af þessu lendir á ungu fólki, mjög mörgu ungu fólki, sérstaklega ungu fólki sem hefur lent í klónum á smálánafyrirtækjum sem við ættum hreinlega að reyna að losna við með öllum hugsanlegum ráðum, hvernig í ósköpunum sem við förum að því. Þetta eru náttúrlega bara skaðræðisfyrirtæki og þeir sem síst skyldi lenda helst í klónum á þeim. Ég tala bara skýrt og skorinort hvað það varðar enda er það mín bjargfasta trú að þau séu ekki af hinu góða. Og að senda ungu fólki og krökkum SMS og segja: Vantar þig pening? Viltu 10.000 kall? Sendu mér SMS og þú verður búinn að fá hann bara strax. Viðkomandi athugar jafnvel ekki hvaða afleiðingar það hefur. Það er alveg á hreinu að þetta er eins og með allt sem við gerum og öll okkar réttindi, þeim fylgja ákveðnar skyldur. Í þessu tilviki er ekki nóg að fá peninginn sendan inn á kortið sitt eða reikninginn sinn, einn, tveir og þrír. Það eru afleiðingar og maður þarf að standast þær skuldbindingar sem smálánafyrirtæki setur. Oftar en ekki les þetta unga fólk ekki einu sinni smáa letrið sem þar fylgir.

Frumvarpið myndi koma í veg fyrir að þegar búið er að bjarga unga fólkinu sem hefur verið ólánsamt, borga upp skuldir þess og hreinsa borðið, hangi það í þessari snöru, í rauninni algerlega sett til hlés í samfélaginu hvað það varðar að reyna að koma undir sig fótunum með því að nýta sér lánsfé og koma sér t.d. þaki yfir höfuðið eða hvað eina annað sem er. Ég vona svo hjartanlega að þingheimur kynni sér málið vel og sjái hversu mannfjandsamlegt það er að hafa kerfið eins og það leyfir sér að vera núna, að selja persónuupplýsingar um okkur til þriðja aðila í gróðaskyni sem í raun og veru bitnar síðan á þeim sem síst skyldi, á þeim sem í raun skulda ekki neitt en hanga í þessari snöru, eins og áður segir, í allt að fjögur ár. Við vonum það besta, það er víst ekkert annað hægt að gera, virðulegi forseti.