störf þingsins.
Virðulegi forseti. Hálftími hálfvitanna hefur þessi dagskrárliður, störf þingsins, sem ég tala hér í, oft verið kallaður. Og nú, í breyttu skipulagi þingvikunnar, er hann bara einu sinni í viku í staðinn fyrir tvisvar og vil ég gera athugasemd við það.
Nýja skipulagið er jú tilraunaverkefni og hvað varðar þennan tiltekna dagskrárlið finnst mér það hafa mistekist. Jafnvel þó að fleiri þingmenn komist að í hvert skipti þá er það ekki nóg því að þessi dagskrárliður er að mínu mati einn sá mikilvægasti í þingdagskránni. Einu sinni í viku er ekki nóg, enda er vika í pólitík heldur betur langur tími. Í störfum þingsins fá þingmenn tækifæri til að tjá sig á eins óháðan hátt og í raun gerist hér í þingsal. Þetta er dínamískur dagskrárliður, hann getur verið ögrandi. Hann kveikir oft upp í málefnum eða hugmyndum sem annars hefðu alls ekki jafn hæglega fundið sér farveg hingað inn í þingsal. Störfin fúnkera sem stöðutékk á því sem brennur á þingmönnum hverju sinni og gefa málefnum oft ágætismöguleika á fjölmiðlaumfjöllun.
Virðulegi forseti. Hálftími hálfvitanna er að mínu mati einn vanmetnasti dagskrárliður þingsins og ekki er hann nú tímafrekur eða ófyrirsjáanlegur. Þetta er bara hálftími og hálftími tekur bara hálftíma. Hann hefur verið talaður niður og nú hef ég setið á þingi síðan í nóvember og þetta ku vera síðasta ræðan sem ég held undir þessum dagskrárlið í a.m.k. mjög langan tíma. En ég sendi hér hvatningu mína til þingheims um að standa vörð um þennan dýrmæta dagskrárlið sem störf þingsins eru, því að ég fullyrði að hann sé dýrmætur fyrir lýðræðið sjálft.