151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni orð sem talsmaður sérgreinalækna viðhafði í sjónvarpsþættinum ágæta, Kveik, á dögunum þar sem var því haldið á lofti með hótunum að mögulega ætti að hætta að hafa milligöngu milli Sjúkratrygginga Íslands og sjúklinga. Að mínu viti, forseti, er þetta illa dulbúin hótun. Ég tel að um ólögmæta hótun sé að ræða sem fari gegn 23. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Nú ber svo við að saman hafa tekið höndum Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands og gefið út yfirlýsingu vegna þessara ummæla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Geri sérfræðilæknar alvöru úr hótun sinni munu sjúklingar að öllum líkindum þurfa að leggja út fyrir öllum kostnaði og sækja svo endurgreiðslu frá SÍ. Nú þegar eiga margir erfitt með að greiða upphafskostnað sinn í greiðsluþátttökukerfunum og margir neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Stórir hópar fólks munu ekki sjá fram á að geta lagt út fyrir þjónustu sérfræðilækna og þá er ekki minnst á óþægindin sem fylgja því að þurfa að fá kostnaðinn endurgreiddan.“

Forseti. Ég tel að þetta stangist á við lög þar sem segir um hófsemi í 23. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn:

„Heilbrigðisstarfsmenn skulu gæta þess við veitingu heilbrigðisþjónustu og framkvæmd starfa sinna að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir sem standa straum af kostnaði vegna hennar verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.“

Forseti. Ég tel ólíðandi að í deilu sinni við Sjúkratryggingar hóti sérgreinalæknar þessu, sem mun bitna á sjúklingum, og hóti lögbroti í eiginhagsmunaskyni.